Tekinn af lífi fyrir morðið á drengnum

Juan Carlos Chavez.
Juan Carlos Chavez.

Karlmaður, sem játaði að hafa nauðgað og myrt níu ára dreng, var tekinn af lífi í Flórída í gær.

Juan Carlos Chavez var 46 ára. Hann var í 15 ár á dauðadeild. Hann fékk banvæna sprautu í gær og var úrskurðaður látinn kl. eitt í nótt að íslenskum tíma.

Aftökunni var frestað um tvær klukkustundir þar sem dómnum hafði enn einu sinni verið áfrýjað, en án árangurs.

Chavez játaði að hafa rænt níu ára dreng, Jimmy Ryce, er hann kom út úr skólabílnum 11. september árið 1995. Hann hótaði drengnum m.a. með byssu. Hann nauðgaði honum og barði hann er hann reyndi að flýja.

Ryce var saknað í þrjá mánuði. Umfangsmikil leit fór fram sem að lokum leiddi lögregluna á slóð Chavez í kjölfar ábendingar frá bónda sem Chavez hafði unnið hjá í Miami-Dade-sýslu.

Bóndinn hitti Chavez og hafði hann meðferðis skólatösku drengsins. Í henni var byssa sem stolið hafði verið frá bóndanum.

Sundurlimað lík drengsins fannst síðar, grafið í steypu í garði á bóndabæ í nágrenninu.

Í sinni síðustu áfrýjun til Hæstaréttar kom fram að Chavez teldi að lyfjablandan, sem nota ætti við að taka hann af lífi, myndi ekki tryggja stjórnarskrárbundin réttindi hans. 

Skortur er á þeirri lyfjablöndu sem flest ríki Bandaríkjanna nota venjulega til að taka fólk af lífi. Nokkrum aftökum hefur verið frestað undanfarið þar sem grunur leikur á að nýja blandan hafi valdið föngum óþarfa þjáningum.

Hæstiréttur féllst hins vegar ekki á rök Chavez. Hann skýrði ákvörðun sína ekkert frekar.

mbl.is