Sigur dauðadæmdu fanganna

Mörgum aftökum hefur verið frestað í Bandaríkjunum undanfarnar vikur.
Mörgum aftökum hefur verið frestað í Bandaríkjunum undanfarnar vikur. AFP

Hópur fanga, sem bíða aftöku í Arkansas í Bandaríkjunum, vann mál fyrir dómstólum svo tímabundið verður öllum aftökum í ríkinu frestað. Í dómnum segir að ekki megi framkvæma aftökur fyrr en stjórnvöld hafa skilgreint hvaða banvænu lyfjablöndu skuli nota til verksins.

Mikil umræða hefur skapast í Bandaríkjunum síðustu vikur vegna lyfjanna sem notuð eru til að taka fanga af lífi. 

Í dómnum, sem dómari í Pulaski-sýslu kvað upp í gær, segir að leiðbeiningar skorti í lögum Arkansas um hvernig framkvæma skuli aftökur. Slíkt hafi ekki verið lagað þrátt fyrir að ný lög hafi tekið gildi á síðasta ári.

Í lögunum kemur vissulega fram að nota skuli svokölluð barbítúrat-lyf til að taka fólk af lífi, en ekki er nánar tekið fram af hvaða tegund lyfið skuli vera. Þá segir ekkert í lögunum um þjálfun sem starfsmenn þurfa að fá til að mega framkvæma aftöku með banvænni lyfjablöndu.

Fangarnir segja að lögin í Arkansas brjóti í bága við áttundu grein bandarísku stjórnarskrárinnar, þar sem fram kemur að bannað sé að beita fólk ómannúðlegum og óvenjulegum refsingum.

Enginn hefur verið tekinn af lífi í Arkansas frá árinu 2005. Hins vegar bíða 298 fangar á dauðadeildum fangelsanna. 

Vilja ekki selja lyf til aftaka

Arkansas er eitt þeirra ríkja í Bandaríkjunum sem íhuga breytingar á aftökuaðferðum. Lyf sem yfirleitt er notað við aftökur í landinu er að verða ófáanlegt. Skýringin er sú að framleiðandi þeirra í Evrópu neitar nú að afhenda lyfið, þar sem það sé notað við aftökur í bandarískum fangelsum. Því hefur ný lyfjablanda verið notuð við aftökur síðustu vikur. Sú hefur ekki reynst vel og eru dæmi um að fangar hafi engst um af sársauka eftir að henni hefur verið dælt inn í líkama þeirra.

Í kjölfarið hafa margir fangar farið fram á að aftökum þeirra verði frestað.

Ríkisstjóri Washington hefur þegar tekið ákvörðun um að fresta öllum aftökum í bili, þar sem „of margir gallar“ séu á kerfinu.

Þá ræða þingmenn Kansas nú hvort afnema eigi dauðarefsingu. 

mbl.is