Reynt er að finna leiðir sem leitt geti til samkomulags í óformlegum samtölum milli fulltrúa Samtaka atvinnulífsins og ASÍ-félaga sem felldu kjarasamningana. Engin lausn er þó í sjónmáli og eru ýmsar hugmyndir sem ræddar hafa verið enn mjög lausbeislaðar, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.
Hefur m.a. verið rætt hvort skynsamlegt sé að semja til lengri tíma en næstu áramóta, skv. heimildum blaðsins, og hvort svigrúm sé til hækkana lægstu launataxta umfram það sem samið var um í desember.
Í fréttaskýringu í Morgumnblaðinu í dag segir að markmiðið í þessum samtölum hefur verið að haldið verði aftur af verðbólgu og séð til þess að kaupmátturinn á þessu ári rýrni ekki. Þá hefur sú hugmynd komið til tals að setja verðlagsmarkmið með rauðu striki í samningunum næsta haust. Jafnframt verði að koma skilaboð frá stjórnvöldum varðandi frekari skattalækkanir fyrir lágtekjuhópana.