Sjávarútvegsráðuneytið hafnaði í gær beiðni Norðmanna um að fá að veiða loðnu áfram í íslenskri lögsögu.
Áður hafði ráðherra veitt þeim leyfi til að veiða við landið í átta daga umfram samninga og lýkur þeim tíma á miðnætti í kvöld. Fjögur norsk skip hafa undanfarið verið við veiðar á Skjálfanda og hafa tvö þeirra landað í Austfjarðahöfnum.
Íslensku skipin hafa hins vegar verið við veiðar á Faxaflóa og voru nokkur þeirra út af Malarrifi á sunnanverðu Snæfellsnesi í gærkvöldi. Skurður á loðnu og hrognataka hófst hjá fiskiðjuveri HB Granda á Akranesi í gærmorgun.