Hörð gagnrýni kom fram á ríkisstjórnina við upphaf þingfundar í dag. Hver þingmaðurinn á fætur öðrum úr þingflokkum stjórnarandstöðunnar kom í ræðustól og gerðu alvarlegar athugasemdir við framlagningu tillögu utanríkisráðherra um að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka. Einnig var það gagnrýnt að tillagan hafi verið sett á dagskrá þingsins í dag, þrátt fyrir að forseti hafi dregið það til baka.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gerði athugasemd við það að þingsályktunartillögu utanríkisráðherra hafi verið dreift á föstudagskvöld og þingmönnum tilkynnt um það með smáskilaboðum. Þá hafi málið verið sett á dagskrá í dag, á sama tíma og rætt sé um skýrslu hagfræðistofnunnar um stöðu viðræðna við Evrópusambandið.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði það fyrir neðan allar hellur, að þingmönnum væri ekki gefinn kostur á að ræða um skýrsluna áður en tillaga utanríkisráðherra er lögð fram og sett á dagskrá.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði ljóst að ósk eftir skýrslunni hafi verið skrípaleikur og þingið og þjóðin hafi verið gerð að fífli.
Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði að í þessu máli opinberist hvers lags pólitískir hryggleysingjar skipi ríkisstjórnina. Þeir þori ekki að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það sé óhæfuverk.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, benti á að þrír sólarhringar hafi liðið frá því tillagan um umsókn að ESB var lögð fram og þangað til umræða um hana hófst. Og þeir sem eru með digurbarkalegar yfirlýsingar í dag séu þeir sem greiddu atkvæði gegn þjóðaratkvæðagreiðslu þá.
Hann sagði jafnframt að stjórnarandstæðan þori ekki að taka málið og dagskrá og ræða það í þinginu. Hún sé að þvælast fyrir því að umræðan um framhaldið verði rætt í þinginu þar sem umræðan á heima.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, kvartaði sjálfur yfir því að forseti Alþingis hefði tekið tillögun af dagskránni skömmu áður en þingfundur hófst. Hann óskaði eftir því að tillagan verði sett aftur á dagskrá og mótmælti ákvörðun forseta. Þá sagði hann umræðuna um afleiðingar á alþjóðavettvangi, ef umsóknin verði dregin til baka, vera á sama veg og í Icesave-málinu, það væri sama hrakspáin.