Þrennt var aðallega gagnrýnt

Þrennt var það sem þing­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar gagn­rýndu hvað helst í umræðum um störf þings­ins á Alþingi í dag; tíma­setn­ing þings­álykt­un­ar­til­lögu ut­an­rík­is­ráðherra, hvernig hún var kynnt og að hún skyldi vera tek­in á dag­skrá þing­fund­ar. Gagn­rýn­in beind­ist þá helst að for­seta þings­ins.

Fyr­ir lá að halda áfram umræðu um skýrslu Hag­fræðistofn­un­ar Há­skóla Íslands um stöðu aðild­ar­viðræðna Íslands við Evr­ópu­sam­bandið. Umræðan hófst á miðviku­dag í síðustu viku og hélt áfram á fimmtu­dag. Eng­inn þing­fund­ur var á föstu­dag en, eins og Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, þingmaður Vinstri grænna, orðaði það, þá var um kvöld­mat­ar­leytið þann dag varpað sprengju inn í umræðuna.

Þá fengu þing­menn smá­skila­boð frá Alþingi með til­kynn­ingu um að þingskjali hefði verið dreift utan þing­fund­ar. Þar var um að ræða þings­álykt­un­ar­til­lögu Gunn­ars Braga Sveins­son­ar ut­an­rík­is­ráðherra um að draga beri aðild­ar­um­sókn Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu til baka.

Nokkr­ir þing­menn gerðu at­huga­semd við að til­lag­an hefði verið lögð fram með þess­um hætti og sagðist Össur Skarp­héðins­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, ákaf­lega ósátt­ur við vinnu­brögð for­seta Alþing­is í þeim efn­um. Með því að dreifa þingskjal­inu utan þing­fund­ar hefði hann brotið vinnu­regl­ur. Meg­in­regl­an væri að dreifa þing­mál­um á þing­fund­um og þótt heim­ild væri fyr­ir því að dreifa þeim á vefn­um utan þing­funda þyrfti að liggja fyr­ir því góð og gild ástæða.

Ein­ar K. Guðfinns­son, for­seti Alþings­ins, svaraði því til að hann hefði metið stöðuna þannig eft­ir þing­flokks­fundi stjórn­ar­flokk­anna á föstu­dag, þar sem fjallað var um þings­álykt­un­ar­til­lögu ut­an­rík­is­ráðherra, að það hefði verið í þágu þings­ins að hún kæmi fram strax, og þá utan þing­funda.

Þing­menn ekki jafn­sett­ir

Þá var gagn­rýnt að ut­an­rík­is­ráðherra hefði lagt þings­álykt­un­ar­til­lög­una fram áður en umræðu um skýrslu Hag­fræðistofn­un­ar væri lokið. Vísuðu þing­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar á það, að sú skýrsla ætti að vera til ít­ar­legr­ar umræðu og næstu skref Íslands í aðild­ar­viðræðunum að grund­vall­ast á þeirri umræðu. Þing­menn sögðust ef­ast stór­lega um að þings­álykt­un­ar­til­lag­an hefði verið sam­in eft­ir að skýrsl­an var gerð op­in­ber og á grund­velli henn­ar. Spurðu þeir að því í til­efni hvers vegna væri yf­ir­leitt verið að ræða um skýrsl­una á þing­fundi, s.s. ef hún hefði ekk­ert gildi í umræðunni.

Stein­grím­ur benti á að umræðan væri langt á veg kom­in og því væri frá­leitt að leggja fram þings­álykt­un­ar­til­lög um að draga um­sókn­ina til baka á þess­um tíma­punkti. Til­lag­an hefði átt að liggja fyr­ir áður en umræðan um skýrsl­una hófst eða lögð fram eft­ir umræðuna. Þing­menn hefðu þegar tekið þátt í umræðunni og jafn­vel klárað báðar ræður sín­ar, þær hefðu ekki verið byggðar á því að til­laga um að slíta viðræðum væri kom­in fram og þannig væru þeir jafn­sett­ir þeim sem ættu eft­ir að halda ræður.

Til­lag­an var tek­in af dag­skrá

Einnig var það gagn­rýnt að þings­álykt­un­ar­til­laga Gunn­ars Braga hefði verið sett á dag­skrá þings­ins fyr­ir dag­inn í dag. Sú gagn­rýni sást strax á fundi þing­flokks­formanna með for­seta Alþing­is fyr­ir þing­fund en þá gengu nokkr­ir þeirra af fundi í mót­mæla­skyni. Þegar nær dró þing­fundi ákvað for­seti þings­ins að verða við kröf­um stjórn­ar­and­stæðinga og tók til­lög­una af dag­skrá þings­ins.

Gunn­ar Bragi lýsti því yfir á þing­fund­in­um að hann væri ósátt­ur við þessa ákvörðun for­seta Alþing­is. Hann sagðist ekki skilja rök for­seta Alþing­is fyr­ir því að verða við kröfu stjórn­ar­and­stæðinga, mót­mælti því og óskaði eft­ir að málið yrði sett aft­ur á dag­skrá.

Ein­ar K. sagðist hafa talið það eðli­legt að setja málið á dag­skrá en eft­ir að hafa hlýtt á mót­mæli annarra teldi hann skyn­sam­legt að leita sátta um málsmeðferðina og taka til­lög­una af dag­skrá.

Þing­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar sögðust ótt­ast að til stæði að keyra þings­álykt­un­ar­til­lögu ut­an­rík­is­ráðherra í gegn­um þingið og óskuðu eft­ir því að til­lag­an yrði ekki sett á dag­skrá þings­ins að nýju fyrr en umræðu um skýrslu Hag­fræðistofn­un­ar­værié lokið, hún send ut­an­rík­is­mála­nefnd til yf­ir­ferðar og henni lokið.

Í máli for­seta þings­ins kom fram að til­lög­ur þess efn­is að skýrsl­unni yrði vísað til nefnd­ar eft­ir umræðuna hefði komið fram og að hann væri sam­mála þeim. Hann gaf hins veg­ar ekk­ert upp um það hvort til­laga ut­an­rík­is­ráðherra yrði sett á dag­skrá eft­ir yf­ir­ferð ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar, eða fyrr.

Óskuðu eft­ir skýr­um svör­um

Þegar umræðu um störf þings­ins lauk voru tekn­ar fyr­ir óund­ir­bún­ar fyr­ir­spurn­ir. Eft­ir það var komið að umræðu um skýrsl­una. Þá tók hins veg­ar aft­ur við umræða um störf þings­ins þar sem þing­menn stjórn­ar­and­stöðunn­ar óskuðu eft­ir skýr­um svör­um um þing­lega meðferð skýrsl­unn­ar og hvort at­kvæðagreiðsla um að slíta viðræðum við Evr­ópu­sam­bandið færi ekki ör­ugg­lega fram eft­ir að skýrsl­an væri kom­in til baka frá ut­an­rík­is­mála­nefnd. „Það er ómögu­legt að tjá sig um skýrsl­una þegar við vit­um ekki hvernig fer með hana,“ sagði Sig­ríður Ingi­björg Inga­dótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Eng­in svör feng­ust og hélt umræðan um skýrsl­una áfram. Þegar þetta er skrifað eru enn fimmtán þing­menn á mæl­enda­skrá.

Bein út­send­ing frá Alþingi

mbl.is

Bloggað um frétt­ina