Bætt vinnubrögð bæti kjörin

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.
Guðmundur Ragnarsson, formaður VM.

Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélastjóra og málmtæknimanna (VM), segist vera þeirrar skoðunar að láta eigi reyna á aðfarasamning, sem SA og ASÍ undirrituðu í desember. Hann kveðst trúa því að með áherslu á ný og breytt vinnubrögð muni það skila félagsmönnum bættum kjörum.

„Dagvinnulaun á Íslandi eru fáránlega lág og úr takt við auð hagkerfisins, því verður að breyta. Ef fer fram sem horfir verða einu úrræði okkar launamanna að  þvinga fram ásættanlegan hlut af efnahagskökunni með verulegri hækkun dagvinnulauna og verðtryggja þau síðan. Það er eina leiðin sem við höfum til að fá alla til að axla ábyrgðina á því hvort hér næst stöðugleiki eða ekki. Það er ekki náttúrulögmál að launþegar borgi alltaf brúsann af misheppnuðum tilraunum í efnahagsmálum,“ skrifar Guðmundur í pistli sem birtur er á heimasíðu félagsins.

„Þetta mun reyna á í aðfarasamningnum ef hann verður samþykktur af félagsmönnum VM. Mín skoðun er sú að við eigum að láta á það reyna að fara í aðfarasamninginn og ég trúi því að með áherslu á ný og breytt vinnubrögð muni það skila okkur í bættum kjörum,“ skrifar hann ennfremur.

Hann segir að nú sé það undir félagsmönnum VM komið að taka afstöðu og Guðmundur vonar að þátttakan verði betri í kosningunni nú en var um kjarasamninginn sem var felldur.

Þá segir hann mikla ólgu vera í samfélaginu og mörg mikilvæg mál brenni á almenningi. Menn megi hins vegar ekki gleyma sér í dægurþrasinu, heldur horfa til framtíðar og reyna að byggja upp framtíðarsýn til að vinna eftir.

mbl.is