Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingar, spurði Gunnar Braga Sveinsson, utanríkisráðherra og eftirmann sinn í embætti, um orð hans í viðtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í kvöld um að þrýstingur frá Evrópusambandinu sé að baki því að taka þurfi ákvörðun um umsókn Íslands sem fyrst.
Össur sagðist ekki hafa geta skilið orð utanríkisráðherra á annan veg en að Evrópusambandið þrýsti á um svör frá ríkisstjórn Íslands í málinu. Hann sagði ráðherra ekki hafa upplýst utanríkismálanefnd um þennan þrýsting og bað hann vinsamlegast um að skýra hvaða grundvöllur væri fyrir ummælunum í viðtalinu, hvaða samtöl hann hefði átt um málið.
Gunnar Bragi kom í ræðustól og vísaði til viðtals sem sýnt var á Ríkisútvarpinu 15. júní í fyrra þar sem vitnað hafi verið í Stefan Füle, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, þar sem hann hafi sagt að þetta ætti ekki að láta bíða lengi. Einnig hafi verið vísað í orð Füle í EUObserver þar sem kom fram að Evrópusambandið vilji að ákvörðun liggi fyrir sem fyrst.
Össur sagðist ekki þekkja síðara viðtalið en fyrri fundinn þekki hann vel og þar hafi stækkunarstjórinn verið að vísa til þess hvenær þjóðaratkvæðagreiðsla um framhaldið yrði haldin. Þá óskaði hann eftir fundi í utanríkismálanefnd hið snarasta ef ráðherra búi yfir frekari upplýsingum.
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingar, sagði það koma sér á óvart að svo stórar ákvarðanir á borð við að slíta aðildarviðræðum að Evrópusambandinu væru teknar á grundvelli tveggja viðtala í fjölmiðlum en ekki einkafundum við kollega ráðherrans.