Ákvörðun liggi fyrir sem fyrst

Gunnar Bragi og Össur Skarphéðinsson.
Gunnar Bragi og Össur Skarphéðinsson. mbl.is/Kristinn

Össur Skarp­héðins­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar, spurði Gunn­ar Braga Sveins­son, ut­an­rík­is­ráðherra og eft­ir­mann sinn í embætti, um orð hans í viðtali við frétta­stofu Rík­is­út­varps­ins í kvöld um að þrýst­ing­ur frá Evr­ópu­sam­band­inu sé að baki því að taka þurfi ákvörðun um um­sókn Íslands sem fyrst.

Össur sagðist ekki hafa geta skilið orð ut­an­rík­is­ráðherra á ann­an veg en að Evr­ópu­sam­bandið þrýsti á um svör frá rík­is­stjórn Íslands í mál­inu. Hann sagði ráðherra ekki hafa upp­lýst ut­an­rík­is­mála­nefnd um þenn­an þrýst­ing og bað hann vin­sam­leg­ast um að skýra hvaða grund­völl­ur væri fyr­ir um­mæl­un­um í viðtal­inu, hvaða sam­töl hann hefði átt um málið.

Gunn­ar Bragi kom í ræðustól og vísaði til viðtals sem sýnt var á Rík­is­út­varp­inu 15. júní í fyrra þar sem vitnað hafi verið í Stef­an Füle, stækk­un­ar­stjóra Evr­ópu­sam­bands­ins, þar sem hann hafi sagt að þetta ætti ekki að láta bíða lengi. Einnig hafi verið vísað í orð Füle í EU­Obser­ver þar sem kom fram að Evr­ópu­sam­bandið vilji að ákvörðun liggi fyr­ir sem fyrst.

Össur sagðist ekki þekkja síðara viðtalið en fyrri fund­inn þekki hann vel og þar hafi stækk­un­ar­stjór­inn verið að vísa til þess hvenær þjóðar­at­kvæðagreiðsla um fram­haldið yrði hald­in. Þá óskaði hann eft­ir fundi í ut­an­rík­is­mála­nefnd hið snar­asta ef ráðherra búi yfir frek­ari upp­lýs­ing­um. 

Katrín Júlí­us­dótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­ar, sagði það koma sér á óvart að svo stór­ar ákv­arðanir á borð við að slíta aðild­ar­viðræðum að Evr­ópu­sam­band­inu væru tekn­ar á grund­velli tveggja viðtala í fjöl­miðlum en ekki einka­fund­um við koll­ega ráðherr­ans.

mbl.is