Tekinn af lífi fyrir nauðgun og morð

Michael Taylor var tekinn af lífi í Missouri í morgun.
Michael Taylor var tekinn af lífi í Missouri í morgun.

Yfirvöld í Missouri tóku Michael Taylor, 47 ára, af lífi snemma í morgun en hann var dæmdur til dauða fyrir að hafa nauðgað og myrt fimmtán ára gamla stúlku árið 1989.

Michael Taylor var úrskurðaður látinn klukkan 12:10 að staðartíma, klukkan 6:10 að íslenskum tíma. Aftakan fór fram í Bonne Terre-fangelsinu, að því er fram kemur í frétt Reuters.

Samkvæmt frétt Guardian var lyfið pentobarbital notuð við aftökuna en ekki er gefið upp hver framleiðandi lyfsins er. Hart hefur verið deilt á notkun lyfsins við aftökur í Bandaríkjunum en talið er að það valdi ónauðsynlegum kvölum við andlátið. Slíkt væri brot á áttundu grein bandarísku stjórnarskrárinnar.

Taylor játaði árið 1991 að hafa nauðgað og myrt Ann Harrison árið 1989. Stúlkunni var rænt á strætóbiðstöð í nágrenni Kansas City, hún pyntuð og stungin til bana.

Seint í gærkvöldi hafnaði hæstiréttur Bandaríkjanna beiðni um að fresta aftökunni. Aftakan er sú fjórða í Missouri á jafnmörgum mánuðum.

Verjendur Taylors höfðu óskað eftir upplýsingum um hver framleiddi lyfið sem nota átti við aftökuna. Eins vísuðu þeir til þess að lögfræðingur Taylors við réttarhöldin á sínum tíma hefði verið svo önnum kafin að hún hefði hvatt hann til þess að játa sekt í málinu svo álagið á hana minnkaði. 

Í mörg ár var notuð blanda þriggja lyfjategunda við aftökur í Missouri en ríkið gerði breytingar þar á fyrir nokkrum mánuðum og hóf að nota eingunis pentobarbital.

Í síðustu viku greindi  Apothecary Shoppe í Oklahoma frá því að fyrirtækið myndi ekki útvega pentobarbital til að nota við aftöku Taylors.

Samkvæmt upplýsingum frá saksóknara frá 19. febrúar var búið að semja við annað lyfjafyrirtæki um að útvega lyfið fyrir aftökuna en ekki var upplýst hver framleiðandinn var. Verjendur Taylors sögðu að með því að halda því leyndu hver framleiðandinn væri væri komið í veg fyrir að hægt væri að kanna gæði lyfsins og hvort það myndi valda hinum dauðadæmda óþarfa kvölum. 

Gefur lítið fyrir miskunnsemi við aftökur

Pete Edlund, sem stýrði morðrannsókninni á sínum tíma, gefur lítið fyrir ummæli verjandans og segir að ef beita ætti sömu aðferðum og Harrison notaði við morðið væri ekki verið að hugsa um mannúðlega aðgerð við aftökuna. „Útvegum fjárans reipið, hengjum þá, hendum þeim í gasklefann eða bara hvað sem þarf til,“ segir Edlund.

Ann Harrison var að bíða eftir strætó að morgni 22. mars 1989 þegar Roderick Nunley og Tayor drógu hana inn í bíl sem þeir höfðu stolið. Fóru með hana heim til sín þar sem þeir nauðguðu henni og stungu hana til bana. Báðir voru undir miklum áhrifum fíkniefna þegar þeir myrtu stúlkuna. Nunley var einnig dæmdur til dauða og bíður aftöku á dauðadeild.

Eftir morðið hentu þeir Taylor og Nunley líkinu í skottið og óku bifreiðinni skamman veg þar sem þeir skildu bifreiðina efir. Lík stúlkunnar fannst þremur dögum síðar og tók rannsóknin hálft ár.

Ábending barst um þá Taylor og Nunley eftir að heitið var 10 þúsund Bandaríkjadala greiðslu fyrir upplýsingar um morðingjana. Þeir játuðu báðir sök og voru dæmdir til dauða árið 1991. Málinu var síðan vísað heim í hérað á ný fyrir áfrýjunardómstól og voru þeir aftur dæmdir til dauða árið 1994.

mbl.is