Verkalýðsfélag Akraness og Samtök atvinnulífsins hafa skrifað undir sáttatillögu ríkissáttasemjara vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.
Um er að ræða viðauka við kjarasamninginn sem mörg félög undirrituðu í desember.
„Aðalágreiningur okkar laut að því að SA skilyrtu það að þessi samræmda launastefna sem kveðið er á um skyldi einnig gilda um aðra sérgerða samninga sem Verkalýðsfélag Akraness er með. Niðurstaðan var sú að við ætlum að skoða möguleika á að ganga frá samningi fyrir starfsmenn Elkem til tveggja eða þriggja ára þannig að þá erum við komnir út fyrir þessa samræmdu launastefnu sem við höfnum algerlega,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.