„Við leggjum til, eins og ávallt, að við úthlutun makrílkvótans sé farið að vísindalegri ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), eins og á við um stofna sem nýttir eru í samstarfi margra þjóða.“
Þetta segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar í Morgunblaðinu í dag, en tilefnið er slit viðræðna strandríkja um skiptingu makrílstofnsins. Er fjallað um þau viðræðuslit í grein hér fyrir ofan.
„Auðvitað er stjórn veiðanna í uppnámi þegar ekki hafa náðst samningar. Það er mjög miður að ekki skuli hafa náðst saman þegar makrílstofninn er í vexti. Þótt það séu vísbendingar um að stofninn sé að stækka og að hann sé sterkur og hafi þolað þessar veiðar á undanförnum árum, þá er fyrirsjáanlegt að stofninn mun fara niður á við á einhverjum tímapunkti, og þá fyrr en seinna, ef einhverjar verulegar veiðar umfram ráðgjöf halda áfram.“ Jóhann segir þróunina þvert á væntingar um betri stjórn veiðanna.