Fram kom í máli forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, á Alþingi í dag að fundur formanna stjórnmálaflokkanna sem sæti eiga á þingi um framhald þingsályktunartillögu utanríkisráðherra, um að draga umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið til baka, færi fram klukkan 17:30. Ennfremur varð hann við þeim óskum stjórnarandstöðunnar að hlé yrði á þingfundi á meðan og að formenn stjórnarandstöðuflokkanna fengju 15 mínútna hlé að auki fyrir fund formannanna til undirbúnings.
Einar sagði að á móti gerði hann ráð fyrir að hægt yrði að hefja efnislega umræðu um þingsályktunartillöguna. Stjórnarandstæðingar þökkuðu forseta fyrir þá viðleitni en sögðust engu að síður telja rétt að umræðan hæfist ekki fyrr en að lokum formannafundinum. Fyrir vikið hefur efnisleg umræða ekki enn hafist en þess í stað hafa stjórnarandstæðingar komið upp í ræðustól og ítrekað kröfu sína um að umræðan færi ekki að stað fyrr en að loknum formannafundinum.