Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði á Alþingi í kvöld að íslensk stjórnvöld hefðu ekki fengið neina staðfestingu á því að samkomulag væri í höfn um skiptingu makrílkvótans á milli Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins. Hann sagði að um sögusagnir væri að ræða.
Hann á von á því að sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra muni mæta á fund utanríkismálanefndar Alþingis til að fara yfir stöðuna þegar nánari upplýsingar hafa borist.
„Sé þetta rétt þá er það vitanlega áhyggjuefni og við hljótum að spyrja okkur þá spurninga hvað meinti Evrópusambandið með þeim viðræðum og þeim loforðum sem það hafði gefið okkur. Hvað vakir fyrir Færeyingum? Við vissum hins vegar að Norðmenn voru að leika býsna ljótan leiki í þessu öllu saman. En það er eðlilegt, sé þetta rétt, að utanríkismálanefnd komi saman á morgun eða hinn, og við förum þá yfir málið þegar við vitum eitthvað meira,“ sagði Gunnar Bragi á Alþingi í kvöld.