Alls fá Færeyingar að veiða 156 þúsund tonn af makrílkvótanum eða 12,6%, samkvæmt frétt færeyska fréttavefjarins Portalsins.
611 þúsund tonn koma í hlut ríkja Evrópusambandsins og Noregur fær 279 þúsund tonn í sinn hlut. Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES, er með 42 þúsund tonn.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að svo virtist sem illilega hefði verið farið á bak við Íslendinga í þessu máli og unnið ötullega á bak við tjöldin án vitneskju þeirra.
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, segir samkomulagið marka tímamót sem sýni ljóst að ESB vilji stunda sjálfbærar fiskveiðar. Hún segir að samningaviðræðurnar hafi staðið lengi og tekið á. Mikið hafi verið í húfi. Samkomulagið sé í samræmi við áherslu sambandsins á sjálfbærar veiðar. Það tryggi sjálfbærni makrílstofnsins til lengri tíma.
Þá segir hún að íslenskum stjórnvöldum standi enn til boða að gerast aðili að samkomulaginu í náinni framtíð.
Utanríkisráðherra segist ekki botna neitt í orðum sjávarútvegsstjóra ESB um að Ísland geti gengið inn í samkomulagið síðar. Þetta þurfi að skýra betur. Hann segir sorglegt að ESB skuli enn og aftur fara af stað með ofveiði og nú með stuðningi Noregs. Ísland muni áfram veiða makríl. Skynsamlegt magn og eðlilegt en það sé ekki í hans höndum að tjá sig um það heldur sjávarútvegsráðherra.
Gunnar Bragi segir að Ísland muni örugglega koma sínum sjónarmiðum á framfæri á næstu dögum en í dag verður rætt um makríldeiluna á fundi utanríkismálanefndar.