Ísland láti Norðmenn heyra það

Sigurður Ingi Jóhannsson flutti munnlega skýrslu um óvænta þróun mála …
Sigurður Ingi Jóhannsson flutti munnlega skýrslu um óvænta þróun mála í makríldeilunni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sjáv­ar­út­vegs­ráðherra seg­ir vinnu­brögð Evr­ópu­sam­bands­ins og Fær­eyja valda von­brigðum. Nú stefni í of­veiðar og of­fram­boð af mak­ríl. Össur Skarp­héðins­son og Stein­grím­ur J. Sig­fús­son skora á ut­an­rík­is­ráðherra að krefjast skýr­inga og stappa niður fæti gegn Norðmönn­um, sem þeir saka um klækj­a­brögð.

Ljóst þykir að með sam­komu­lag­inu, sem Ísland á ekki hlut­deild að, stefn­ir í mikla of­veiði á mak­ríl, sem gæti reynst Íslend­ing­um dýr­keypt.

Mik­il von­brigði

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, ráðherra sjáv­ar­út­vegs­mála, flutti munn­lega skýrslu á Alþingi nú síðdeg­is um þá óvæntu stöðu sem kom­in er upp í mak­ríl­deil­unni, og varð ljós í gær­kvöldi þegar til­kynnt var um samn­ing milli Evr­ópu­sam­bands­ins, Nor­egs og Fær­eyja um skipt­ingu veiðiheim­ilda á mak­ríl.

Samn­ing­ur­inn er til 5 ára og voru Íslend­ing­ar ekki upp­lýst­ir um að hann væri í burðarliðnum. Sig­urður Ingi sagði þessa þróun afar óvænta í ljósi þess að samn­ingaviðræðurn­ar steyttu á Nor­egi og var slitið í síðustu viku með þeim orðum aðal­samn­inga­manns ESB að þær væru full­reynd­ar að sinni.

Það væri alrangt að ís­lenska sendi­nefnd­in hafi slitið viðræðunum.

Stefn­ir í of­veiði og of­fram­boð

Sjáv­ar­út­vegs­ráðherra sagði það sér­stak­lega mik­il von­brigði að ESB hefði vikið frá þeim grunni sem náðst hefði í samn­ing­um við Ísland í fyrra, því aug­ljóst væri að nýja sam­komu­lagið mundi leiða til mik­ill­ar of­veiði miðað við vís­indaráðgjöf.

Und­ir þetta tóku bæði Stein­grím­ur Sig­fús­son og Össur Skarp­héðins­son, sem sagði það ekki ofsagt að með þessu væri komið í bakið á Íslend­ing­um. 

„Ég varð gjör­sam­lega öld­ung­is hlessa í gær þegar þess­ar frétt­ir bár­ust,“ sagði Össur og að grát­legt væri að Íslend­ing­ar væru komn­ir í þessa stöðu. All­ar lík­ur væru nú á of­veiði og of­fram­boði á mörkuðum fyr­ir mak­ríl.

Klækj­a­brögð Norðmanna

Össur sakaði Norðmenn um að beita klækj­a­brögðum og sagði ut­an­rík­is­ráðherra, Gunn­ar Braga Sveins­son, hafa sofið við stýrið.

„Það sem vak­ir fyr­ir Norðmönn­um er að veiða stofn­inn niður [...] til að koma í veg fyr­ir að hann komi hingað. Þess vegna er þetta svo al­var­legt,“ sagði Össur. Hann skoraði á ut­an­rík­is­ráðherra að fara til Fær­eyja til viðræðna, og jafn­framt til að „stappa harka­lega niður fæti“ gegn Norðmönn­um.

Mak­ríl­veiðar Íslend­inga pirrað Norðmenn óend­an­lega

Stein­grím­ur J. Sig­fús­son sagði tíðindi gær­kvölds­ins al­var­leg og stöðu Íslands vanda­sama, en sagði að ekk­ert í fram­göngu Norðmanna kæmi hon­um á óvart enda hefði lengi legið fyr­ir að þeir væru okk­ar erfiðasti and­stæðing­ur í mak­ríl­deil­unni.

„Veiðar Íslend­inga á mak­ríl hafa pirrað Norðmenn al­veg óend­an­lega allt frá byrj­un, það veit sá sem hér stend­ur,“ sagði Stein­grím­ur en að fram­koma Fær­eyja og Evr­ópu­sam­bands­ins væri meira undr­un­ar­efni.

„Evr­ópu­sam­bandið geng­is­fell­ir sjálft sig með því að taka þátt í sam­komu­lagi sem er ávís­un á um það bil hálfr­ar millj­ón­ar tonna veiði um­fram ráðgjöf, með til­heyr­andi áhrif­um fyr­ir markaðinn,“ sagði Stein­grím­ur.

Þurf­um að krefjast skýr­inga

Stein­grími sárn­ar að sögn fram­koma Fær­ey­inga, en sagði það jafn­framt staðreynd að þeir hefðu nú landað gríðarlega góðum samn­ingi fyr­ir sitt leyti.

„Við þurf­um að krefja Evr­ópu­sam­bandið og Fær­ey­inga skýr­inga, hvernig á því stend­ur að Ísland er skilið svona eft­ir þegar skjalfest og viður­kennt er að það voru Norðmenn sem strandaði á þegar staðið var upp frá samn­inga­borðinu í síðustu viku.“

Hann áréttaði að Ísland væri ekki eitt­hvert utang­arðsland held­ur viður­kennt strand­ríki með þeim rétt­ind­um sem því fylgdi. Því væri það „ósvífið að ganga frá sam­komu­lagi til 5 ára án þess að láta okk­ur vita á meðan það væri í fæðingu“.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarp­héðins­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. mbl.is/Ó​mar Óskars­son
Steingrímur J. Sigfússon
Stein­grím­ur J. Sig­fús­son mbl.is/​Krist­inn Ingvars­son
mbl.is