Stefnt er að því að uppfæra ráðleggingar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) vegna heildarkvóta fyrir árið 2014 í síðari hluta maímánaðar. Greint var frá þessu á vefsíðu ráðsins í gær.
Ráðlegging til bráðabirgða var gefin út af hálfu ICES í október síðastliðnum þegar ráðinu varð ljóst að makrílstofninn væri miklu stærri en það hafði áður gert ráð fyrir. Fyrir vikið ráðlagði ICES veiðar sem fólu í sér 64% aukningu frá ráðleggingum ráðsins fyrir síðasta ár og var miðað við heildarveiði undanfarin ár sem það hafði áður talið fela í sér ofveiði. Fram kemur að í febrúar hafi verið lagður grunnur að nýju líkani til þess að meta stærð makrílstofnsins og vinna hafin í kjölfarið við hönnun þess. Mögulega verði fyrir vikið hægt að leggja fram nýja ráðleggingu.
Sem fyrr segir er stefnt að því að hún liggi fyrir í síðari hluta maí eftir að niðurstöður mats á útbreiðslu makrílhrogna á árinu 2013 liggja fyrir.