Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, mun gefa munnlega skýrslu um stöðu mála í makríldeilunni á Alþingi síðdegis. Fjármála- og efnahagsráðherra sagði í morgun að Alþingi ætti að senda skýr skilaboð og fordæma framkomu vinaþjóða Íslands í makríldeilunni.
Í gær sömdu Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar um skiptingu veiðiheimilda á makríl. Ísland stendur utan þess samkomulags.
Í yfirlýsingu frá sjávarútvegsráðuneytinu í dag sagði að ljóst hefði orðið eftir fund í Edinborg í síðustu viku að fullreynt væri að ná samningi sem byggðist á nýtingu á grundvelli ráðgjafar Alþjóðahafrannsóknarráðsins (ICES) líkt og íslenska samninganefndin lagði áherslu á.
Sigurður Ingi hefur sagt að ljóst sé að Noregur hafi aldrei ætlað að semja um þann hlut makrílkvótans sem Ísland getur sætt sig við, né um veiðar á grundvelli ráðgjafar.
Sjávarútvegsráðherra mun gefa munnlega skýrslu um málið kl. 15 í dag.