Indverskur millidómstóll staðfesti í dag dauðadóm yfir fjórum mönnum sem fundnir voru sekir um að nauðga og drepa 23 ára konu í Nýju Delhí í desember 2012. Móðir ungu konunnar fagnar niðurstöðunni og segir réttlætið innan seilingar fyrir fjölskylduna, en mennirnir ætla að áfrýja til hæstaréttar.
„Algjört réttlæti næst fram þegar hinir seku verða allir hengdir,“ sagði móðir konunnar fyrir utan dómssalinn í dag.
Málið setti indverskt samfélag á annan endann og varpaði ljósi á það sem kvenréttindahópar kalla „nauðgunarfaraldur“ á Indlandi. Í kjölfarið fór fram mikil umræða um hatursglæpi gegn indverskum konum og hefur það leitt til þess að lagabreytingar voru gerðar og refsingar vegna kynferðisbrota hertar.
Konan varð fyrir árás sex manna um borð í strætisvagni, þegar hún var á leið heim úr bíó ásamt vini sínum. Þeir misþyrmdu henni og börðu hann og vörpuðu þeim blóðugum í vegkant. Konan dó 13 dögum síðar vegna innvortis áverka sem mennirnir veittu henni með járnröri.
Einn mannanna lést í fangelsi á síðasta ári og sá sjötti er undir lögaldri og fær því málsmeðferð fyrir sérstökum unglingadómstól. Móðir ungu konunnar lýsti því yfir við blaðamenn í dag að hún teldi yngsta árásarmanninn einnig eiga að fá dauðadóm.