„Það er mín skoðun að Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra eigi nú þegar að tilkynna um heildarafla í íslenskri lögsögu. Hann eigi að byggja ákvörðun sína á að við veiðum 11,9% af heildaraflanum eða 140 þús. tonn. Jafnframt er nauðsynlegt til að styrkja ákvörðunina að tilkynna að 12% heildaraflans verði ætlaður til færaveiða smábáta.“
Þetta segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, á vefsíðu sambandsins í dag í tilefni af samkomulagi Evrópusambandsins, Norðmanna og Færeyinga um makrílveiðar næstu fimm árin sem gengið var frá í vikunni án aðkomu Íslendinga. Hann vísar til þess að í samningaviðræðum á milli strandríkjanna áður en samkomulag tókst á milli ESB, Noregs og Færeyja hafi verið rætt um að Ísland fengi 11,9% heildaraflans.
„Landssamband smábátaeigenda hefur mikla hagsmuni varðandi makrílveiðar og framtíð þeirra. Félagsmenn hafa útbúið báta til veiðanna tilbúnir að nýta það sem kemur á þeirra veiðislóð. Í fyrra stunduðu um 100 smábátar færaveiðar á makríl og nam afli þeirra um 4.700 tonnum. Mikilvægt er að þessi hópur búi yfir mikilli veiðigetu þar sem stærri skipum er óheimilt að veiða þeirra slóð,“ segir Örn ennfremur.