Rannsókn á máli Más að ljúka

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi segir stofnunina stefna að því að skila niðurstöðu um afmarkað verkefni varðandi Má Guðmundsson seðlabankastjóra síðdegis á morgun, þriðjudag, eða í síðasta lagi á miðvikudag.

Um er að ræða fyrsta hluta rannsóknarinnar.

Tilefnið er að bankaráð Seðlabanka Íslands samþykkti einróma á fundi sl. fimmtudag að fram skyldi fara „úttekt á greiðslum lögmannsreikninga bankastjóra Seðlabanka Íslands vegna málaferla hans við bankann“.

Voru reikningarnir greiddir af Seðlabankanum frá lokum árs 2011 til miðs árs 2013. Var Ríkisendurskoðun jafnframt falið að kanna hvort farið hefði verið að lögum og reglum við meðferð málsins. 

Sveinn segist aðspurður hafa aflað gagna vegna málsins um síðustu helgi en þrír starfsmenn stofnunarinnar sinna þessu tiltekna verkefni.

Þurfa að skoða fleiri hliðar málsins

Meðal þess sem stofnunin skoðar er hvort flokka megi kostnað Seðlabankans vegna málsóknar Más gegn bankanum sem rekstrarkostnað og var kappkostað að flýta þeim þætti, áður en bankaráð undirritar ársreikning Seðlabankans nk. fimmtudag.

„Það er alveg ljóst að það eru fleiri atriði í þessu máli sem við þurfum náttúrlega lengri tíma til að skoða,“ segir Sveinn sem vill að öðru leyti ekki tjá sig frekar um rannsóknina að sinni. Hann upplýsir þó að umrædd rannsóknarefni lúti að greiðslum SÍ vegna málsóknarinnar. Óvíst sé hvenær þeirri vinnu ljúki. „Um leið og við förum að tjá okkur um þessi mál höfum við ekki vinnufrið.“

Fram kom í samtali Morgunblaðsins við Má Guðmundsson síðastliðinn föstudag að hann væri reiðubúinn að íhuga að endurgreiða Seðlabankanum kostnaðinn vegna málsóknarinnar, jafnvel þótt niðurstaða úttektarinnar yrði sú að honum bæri ekki að gera það.

Samanlagður kostnaður Seðlabankans vegna málsins er 7.431.356 kr. og er þar af kostnaður vegna lögfræðistofu Más 4.148.116 kr. 

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.
mbl.is