Ég er svo rosalega slöpp - hvað er til ráða?

Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti svarar spurningum lesenda.
Inga Kristjánsdóttir næringaþerapisti svarar spurningum lesenda. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Inga Kristjánsdóttir næringarþerapisti svarar spurningum lesenda Smartlands Mörtu Maríu. Ef þér liggur eitthvað á hjarta getur þú sent spurningu HÉR. Inga lærði í Center for ernæring og terapi (CET) í Kaupmannahöfn og útskrifaðist 2006. Auk þess er hún einkaþjálfari og starfaði sem slíkur um tíma.

Sæl Inga.
Ég er svo rosalega slöpp og orkulaus og mér finnst ástandið bara fara versnandi. Ég er búin að vera þreytt meira og minna í allan vetur og næ mér varla fram úr rúminu á morgnana. Ég borða reyndar frekar óreglulega, en mjög hollt samt. Eru einhver súperráð sem þú hefur varðandi mataræði eða bætiefni sem ég gæti prófað?
Kveðja,
ein á röngunni.

Sæl vertu og takk fyrir að senda fyrirspurn.

Þessi þreyta og einkenni sem þú lýsir eru nú ekki óalgeng, skal ég segja þér, en um að gera að skoða þetta og taka á málinu. Ert þú búin að fara til læknis og láta kíkja á þig? Svona einkenni geta auðvitað tengst því að þig vanti hreinlega járn eða ákveðin B-vítamín í kroppinn og þá er ágætt að byrja á að athuga það. Einnig gæti verið að þú ættir að huga að D-vítamíninntöku, þar sem mannslíkaminn nær ekki að vinna slíkt úr sólarljósinu á þessum árstíma. D-vítamínskortur er algengur á Íslandi og getur í einhverjum tilfellum lýst sér sem þreyta og þyngsli í sálinni.

Ein af mínum uppáhaldsjurtum er burnirót. Hún hentar íslenskum konum sérstaklega vel og getur aukið orku, gleði og einbeitingu til muna. Þó ber að hafa í huga að auðvitað virkar hún ekki í öllum tilfellum frekar en nokkuð annað. Burnirót fæst í bætiefnaformi frá ýmsum framleiðendum og því ekki að prófa?

Hvað varðar mataræðið, þá er óhemju mikilvægt að borða reglulega og ef þú til dæmis sleppir morgunmat, þá geturðu lent í blóðsykursóreglu sem getur leitt af sér mikla þreytu og slen. Einnig getur verið að einhver fæða sem þú borðar henti þér ekki og þú sért með fæðuóþol. Það lýsir sér einnig oft sem mikil þreyta og slen. Endilega skoðaðu hvort þetta geti verið málið.

Gangi þér vel og vonandi fer orkustigið hækkandi!

Inga næringarþerapisti

mbl.is