Engir fjölmiðlar á fund hjá RÚV

Ríkisútvarpið
Ríkisútvarpið mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Starfsmannafundur hófst hjá Ríkisútvarpinu klukkan tíu í morgun vegna fregna af því að umtalsvert meira tap verði af rekstri Ríkisútvarpsins á yfirstandandi rekstrarári en áætlanir stjórnenda félagsins gerðu ráð fyrir. Ljósmyndara mbl.is var meinaður aðgangur að fundinum og vísað til nýrra reglna hjá RÚV.

Ljósmyndaranum var gerð grein fyrir því að settar hefðu verið nýjar reglur með nýjum útvarpsstjóra þess efnis að engir fjölmiðlar væru velkomnir á starfsmannafundi hjá Ríkisútvarpinu. Reglurnar hafi verið settar vegna þess að ótækt þótti að starfsmenn læsu um málefni hlutafélagsins opinbera í öðrum miðlum.

Gert er ráð fyrir að tap af rekstri félagsins verði 305 milljónir króna fyrstu sex mánuði ársins og 357 milljónir króna á rekstrarárinu öllu. Stjórn Ríkisútvarpsins hefur óskað eftir því við nýráðinn útvarpsstjóra, Magnús Geir Þórðarson, að hann fari yfir rekstraráætlanir með það að markmiði að reksturinn komist í jafnvægi sem fyrst.

mbl.is