Félagar í Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) samþykktu kjarasamninga sem samtökin gerðu við Samtök atvinnulífsins í alls herjaratkvæðagreiðslu. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var 66,5%, að því er segir í tilkynningu frá SSF.
Af þeim 2.840 sem greiddu atkvæði samþykktu 65,7% samninginn en 30,81% vildu fella hann.
Samningurinn byggðist á sáttatillögu ríkissáttasemjara sem var lögð fyrir stéttarfélög á almennum vinnumarkaði og undirrituð 21. febrúar síðastliðinn.
Kjarasamningurinn felur í sér 2,8% hækkun á kauptaxta félagsmanna en þó að lágmarki 8.000 krónur fyrir dagvinnu. Aðrir kjaratengdir liðir hækka einnig um 2,8%. Allir liðirnir taka gildi frá og með 1. febrúar.
Auk þess er gert ráð fyrir sérstakri hækkun kauptaxta þeirra sem eru með 230.000 krónur á mánuði eða lægra. Taxtar þeirra hækka sérstaklega um 1.750 krónur. Desember- og orlofsbætur hækka samtals um 32.300 krónur frá síðasta samningi. Í stað launabreytinga frá 1. janúar er greidd sérstök 14.600 kr. eingreiðsla miðað við fullt starf.