Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segist ekki eiga von á því að gengið verði lengra í niðurskurðarkröfu til Ríkisútvarpsins.
Hins vegar séu ekki miklir fjármunir til skiptanna og hann geti engu lofað um frekari fjárframlög til stofnunarinnar. Það skýrist ekki fyrr en við gerð næstu fjárlaga og þar verði þessi mál rædd frekar.
Illugi segir í samtali við Morgunblaðið að fregnir af yfirvofandi tapi RÚV á þessu rekstrarári upp á nærri 360 milljónir króna hafi komið sér verulega á óvart. Hann hafi nýlega fengið upplýsingar frá stjórn RÚV um þessa stöðu en hún hafi brugðist hárrétt við með því að kalla eftir úttekt á fjármálum RÚV og skýringum á tapinu.