„Fréttamenn veikja enn frekar trú á starfsemi fréttastofunnar með þessum tilburðum til að hafa áhrif á ráðningarferli sem á að vera opið. Tilgangurinn er augljóslega að fæla hæft fólk frá að sækja um þetta starf. Skilaboðin eru þessi: Við munum ekki una því að annar sé ráðinn en sá sem við samþykkjum.“
Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, á Facebook-síðu sinni í dag vegna fundar fréttamanna Ríkisútvarpsins sem fram fór í gækvöldi þar sem lýst var yfir fullu trausti á Óðin Jónsson fréttastjóra og ennfremur þeirri skoðun að ekki væri tímabært að skipta um fréttastjóra. Öllum framkvæmdastjórum Ríkisútvarpsins verður sagt upp störfum samkvæmt skipulagsbreytingum sem kynntar voru í vikunni og ný framkvæmdastjórn skipuð. Þar á meðal er starf fréttastjóra.
„Á hvaða vinnustað sem er yrði litið á þetta sem hættulega meinsemd og í andstöðu við eðlilegt jafnvægi innan hans. Orð Magnúsar Geirs [Þórðarsonar útvarpsstjóra] hefur mátt skilja á þann veg að hann vilji uppræta smákóngaveldið innan Ríkisútvarpsins. Hann hefur líklega ekki gengið nógu langt í uppstokkuninni.“