Ráðningin á faglegum forsendum

„Hann tók við þessu og fullyrti það að ráðning fréttastjórans yrði á faglegum forsendum og að hann hefði hvorki ákveðið hver yrði ráðinn né hvatt einn eða neinn til þess að sækja um starfið.“

Þetta segir Hallgrímur Indriðason, formaður Félags fréttamanna á Ríkisútvarpinu, í samtali við mbl.is en hann fundaði í morgun með Magnúsi Geir Þórðarsyni, útvarpsstjóra, þar sem hann kom til hans skilaboðum frá fundi félagsmanna sem fram fór í gærkvöldi en þar var lýst yfir fullu trausti við Óðinn Jónsson fréttastjóra og ennfremur þeirri skoðun lýst að ekki væri tímabært að skipta um fréttastjóra.

Samkvæmt skipulagsbreytingum á Ríkisútvarpinu sem kynntar voru í vikunni verður öllum  framkvæmdastjórum þess sagt upp störfum og ný framkvæmdastjórn skipuð. Þar á meðal er starf fréttastjóra.

mbl.is