Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir svarar spurningum lesenda Smartlands Mörtu Maríu. Hér er hún spurð að því hvernig hægt sé að laga hrukkur undir augunum:
Mig langar til að spyrja hvað það kostar að laga hrukkur undir augunum með skurðaðgerð þ.e.a.s. án svæfingar? Gera sem sagt aðgerðina með því að nota aðeins deyfingu.
Og einnig hvort hætta geti verið á að neðri brún augnanna togist of mikið niður á við með þessari aðgerð og augun verði þar af leiðandi þreytuleg, þannig að þörf yrði á annarri aðgerð til þess að laga augnsvipinn? Sömuleiðis hvað það kostar að laga sigin augnlok í deyfingu, án svæfingar?
Sæl og takk fyrir spurninguna.
Það hentar ekki fyrir alla að fara í aðgerð á neðri augnlokum. Sú aukaverkun sem þú ert að lýsa getur orðið ef engin aukahúð var á neðri augnlokum en viðkomandi fór samt í aðgerð! Eða fjarlægt of mikið af húð og þá getur neðra augnlokið togast niður. Það er því mikilvægt að skoða hvert tilfelli sérstaklega. Það sem þú kallar „sigin augnlok“ þá áttu líklega við poka á efri augnlokum. Þessar aðgerðir eru báðar framkvæmanlegar í deyfingu með sk. slævingu (þá færðu róandi og verkjalyf í æð og hjálpar þér að slaka á). Þær kosta 250 þúsund saman.
Gangi þér vel og bestu kveðjur,
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir. Liggur þér eitthvað á hjarta? HÉR getur þú sent spurningu til Þórdísar.