Norðurameríska matvælafyrirtækið High Liner Foods, sem hefur lýst því yfir að það muni ekki eiga frekari viðskipti við HB Granda vegna tengsla þess við hvalveiðar, á afnotarétt af vörumerkinu Icelandic fram til haustsins 2018.
Vörumerkið, sem er talið vera eitt það verðmætasta sem íslenskur sjávarútvegur hefur tekið þátt í að byggja upp, er í eigu sjávarútvegsfyrirtækisins Icelandic Group, en High Liner fékk hins vegar afnotaréttinn af því þegar Icelandic Group seldi starfsemi fyrirtækisins í Bandaríkjunum og Asíu í nóvember 2011. Kaupandinn var einmitt High Liner, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Í tilkynningu frá Framtakssjóðnum, eiganda Icelandic Group, á sínum tíma sagði að við sölu á starfsemi félagsins í Bandaríkjunum hefði í hvívetna verið „gætt hagsmuna íslenskra framleiðenda“.