Að minnsta kosti 778 voru teknir af lífi í 22 löndum í fyrra. Árið 2012 voru aftökurnar mun færri eða 682 í 21 landi, samkvæmt ársskýrslu Amnesty International. Litlar breytingar hafa orðið á röð þeirra landa sem beita dauðarefsingum. Flestar eru þær í Kína, Íran, Írak, Sádi-Arabíu og Bandaríkjunum. Sómalía er í sjötta sæti listans yfir þau lönd sem taka flesta af lífi á ári hverju.
Samkvæmt skýrslu Amnesty eru fleiri teknir af lífi í Kína á hverju ári en samanlagt annars staðar í heiminum. Hins vegar eru til opinberar upplýsingar um hversu margar aftökurnar eru þar í landi og er litið á það sem ríkisleyndarmál. Því eru þúsundir þeirra sem teknir eru á lífi í Kína ekki inni í tölunni, 778.
Í Írak og Íran hefur aftökum fjölgað jafnt og þétt. Í Írak voru 169 hið minnsta teknir af lífi í fyrra sem er 30% aukning milli ára en alls voru aftökurnar 129 talsins árið 2012.
Í Íran er vitað til þess að 369 hafi verið teknir af lífi í fyrra samanborið við 314 árið 2012. Heimildir sem Amnesty telur öruggar herma að aftökurnar hafi verið mun fleiri í fyrra í Íran eða 704 hið minnsta.
Það að 22 lönd heims hafi beitt aftökum sem refsingu í fyrra þýðir að eitt af hverjum tíu löndum heims beitir slíkum refsingum. Árið 2003 voru löndin 28 talsins.
Að minnsta kosti 1.925 manns voru dæmdir til dauða í 57 löndum í fyrra og er það aukning á milli ára. Árið 2012 voru 1.722 dæmdir til dauða í 58 löndum. Um síðustu áramót sátu rúmlega 23 þúsund manns á dauðadeild (23.392).
Í þremur löndum þar sem dauðarefsingum hefur ekki verið beitt í langan tíma var fólk tekið af lífi í fyrra. Í Indónesíu fór fram fyrsta aftakan í fjögur ár og í Kúveit sú fyrsta í sex ár. Í Nígeríu var fyrsta aftakan í sjö ár.
Þær aftökuaðferðir sem eru algengastar: að hálshöggva, rafmagnsstóllinn, hengingar, banvæn lyfjagjöf og aftökusveitir.
Að minnsta kosti þrír voru teknir af lífi í Sádi-Arabíu fyrir glæpi sem þeir frömdu áður en þeir urðu átján ára en þetta er brot á alþjóðalögum. Eins eru miklar líkur á að börn hafi einnig verið tekin af lífi í Jemen og Íran.
Í flestum tilvikum er ekki farið að alþjóðalögum þegar réttað er yfir fólki sem á yfir höfði sér dauðarefsingu. Má þar nefna að pyntingum er beitt til þess að þvinga fram játningu.
Eins eru fangar, lögfræðingar þeirra og ættingjar oft ekki upplýstir áður en aftakan fer fram.
Amnesty Internatonal segir að opinberar aftökur séu enn við lýði í Íran, Norður-Kóreu, Sádi-Arabíu og Sómalíu.
Í þrettán löndum sem dauðarefsingum er beitt er fólk tekið af lífi fyrir fíkniefnabrot og framhjáhald. Eins á fólk yfir höfði sér að vera tekið af lífi fyrir guðlast og efnahagsbrot. Nauðganir og rán þar sem ofbeldi er beitt getur líka leitt viðkomandi á höggstokkinn.
Í Norður-Kóreu liggur dauðarefsing við mannáti, klámi, flótta til Kína, spillingu, fjárdrætti og að horfa á bönnuð myndbönd frá Suður-Afríku.
Að minnsta kosti 64 aftökur fóru fram í fimm Afríkuríkjum í fyrra og er það mikil aukning á milli ára en 2012 var 41 tekinn af lífi í álfunni. Er aukningin langmest í Sómalíu en í fyrra voru 34 teknir þar af lífi.
Bandaríkin eru eina ríki Norður-Ameríku sem beitir dauðarefsingum. Alls voru 39 teknir af lífi þar í fyrra sem er fjórum færri en árið 2012. Níu ríki Bandaríkjanna beittu dauðarefsingum í fyrra. Þar af fór 41% þeirra fram í Texas.
Í Mið- og Suður-Ameríku voru fimmtán teknir af lífi í fjórum löndum.
Í þremur löndum í Karíbahafi voru engar aftökur í fyrra, Grenada, Gvatimala og Saint Lucia, og er þetta í fyrsta skipti sem engar aftökur fara þar fram frá því Amnesty fór að halda utan um tölur um fjölda þeirra árið 1980.
„Fyrir tuttugu árum beittu 37 ríki dauðarefsingunni markvisst. Árið 2004 var talan komin niður í 25 ríki og á síðasta ári beittu 22 ríki dauðarefsingunni. Aðeins níu ríki hafa beitt dauðarefsingunni árvisst síðustu fimm árin. Þróunin er skýr, dauðarefsingin mun heyra fortíðinni til. Við skorum á stjórnvöld sem enn beita dauðarefsingunni í nafni réttlætis að koma á tafarlausu aftökustoppi með það að marki að afnema hana,“ segir Salil Shetty framkvæmdastjóri Amnesty International.