Kona frá Mississippi sem var dæmd fyrir morð gæti orðið fyrsti kvenfanginn til að verða tekinn af lífi í ríkinu í sjötíu ár. Verjandi konunnar hefur reynt að fá aftökunni frestað en sonur hennar hefur ítrekað játað á sig morðið.
Enn hefur ekki verið ákveðið hvenær dauðadómnum verður framfylgt. Michelle Byrom er nú 57 ára. Hún var dæmd til dauða fyrir morðið á eiginmanni sínum, Edward Byrom, árið 1999.
Byrom segir að eiginmaður hennar hafi beitt hana andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi árum saman. Byrom var lögð inn á sjúkrahús daginn sem eiginmaðurinn var skotinn til bana en saksóknari heldur því fram að hún hafi fengið leigumorðingja til verksins. Tilgangurinn hafi verið að svíkja fé út úr tryggingum.
Saksóknari segir að Byrom hafi ráðið vin sonar síns til að drepa eiginmanninn. Sonurinn hafi aðeins séð um að útvega vopnið og fela það eftir morðið.
Michelle Byrom játaði aðild að morðinu á sínum tíma. Nú segist hún hins vegar hafa verið að vernda son sinn, Edward Byrom yngri.
Verjandi Byrom vonast til að dómarnir við hæstarétt í Mississippi muni taka tilllit til þess við áfrýjun málsins, að sonur hennar hafi oft lýst því yfir að hann hafi skipulagt morðið á föður sínum. Þar sem enn hefur ekki verið ákveðið hvaða dag aftakan muni fara fram, eru lögmenn Byrom bjartsýnir á niðurstöðuna.
Það er frekar sjaldgæft að konur séu teknar af lífi í Bandaríkjunum. Í febrúar var kona tekin af lífi í Texas. Hún var sú fjórtánda frá því að dauðarefsingar voru teknar upp að nýju í landinu árið 1976. Á sama tímabili hafa um 1.400 karlmenn verið teknir af lífi, að því er fram kemur í frétt Reuters um málið.
Tvær konur eru á dauðadeild í Mississippi og 48 karlar.