Álagið á Landspítalanum hefur verið gríðarlegt síðustu daga og allt lítur út fyrir að svo verði eitthvað áfram. Rúmanýting var enn yfir 100% um miðjan dag í gær þótt allt stefndi í að það næðist að létta aðeins á fyrir helgina.
Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, sagði stöðuna í gær aðeins skárri en á fimmtudaginn. Vel gekk að útskrifa sjúklinga í gær og stefnt er að talsverðum útskriftum í dag.
„En sjúklingarnir halda áfram að streyma til okkar og núna um hádegið [í gær] biðu sex sjúklingar innlagnar af bráðadeildinni. Okkur hefur hins vegar tekist í bili með ákveðnum ráðstöfunum að koma hlutunum þannig fyrir að þetta gengur betur núna,“ segir Ólafur í fréttaskýringu um álagið á sjúkrahúsunum í Morgunblaðinu í dag.