Fimm fangar voru teknir af lífi í Taívan í dag en tæpt ár er síðan aftaka fór fram á eyjunni.
Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu fóru aftökurnar fram á fimm stöðum en þetta eru fyrstu aftökurnar sem dómsmálaráðherra Taívan fyrirskipar að fari fram frá því Luo Ying-shay sór embættiseið um miðjan september.
Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu voru hinir dauðadæmdu deyfðir áður en þeir voru skotnir til bana. Alls eru 47 fangar á dauðadeild í Taívan.
Taívan tók upp dauðarefsingar að nýju árið 2010 eftir fimm ára hlé. Það ár voru fjórir teknir af lífi, fimm árið 2011, sex 2012 og sex 2013.
Dauðadómum er beitt í mjög alvarlegum málum, svo sem hrottalegum morðum og mannránum. Ekki er hins vegar einhugur meðal stjórnmálamanna hvort afnema eigi þær eða beita.
Hart var deilt um málið fyrir nokkrum árum eftir að hermaður sem var tekinn af lífi fyrir barnsmorð reyndist saklaus.
Chiang Kuo-ching, 21 árs gamall hermaður var tekinn af lífi árið 1997 en sýknaður árið 2011 þegar mál hans var tekið upp. Hann hafði alltaf haldið fram sakleysi sínu og að hann hafi verið pyntaður til að játa á sig nauðgun og morð á fimm ára gamalli stúlku á sínum tíma.