Kjarasamningar hafa verið gerðir fyrir rúmlega 100 þúsund starfsmenn af þeim 140 þúsundum sem eiga aðild að stéttarfélögum. Samningar liggja fyrir hjá 98% starfsfólks á almennum vinnumarkaði en þeir sem eftir eru taka einkum til flugstéttanna. Ríkið hefur gert samninga sem ná til 62% af starfsmönnum þess en fjölmennastir þeirra hópa sem ósamið við eru BHM-félögin. Stærstu hóparnir með lausa samninga eru starfsmenn sveitarfélaga, en þar eru grunnskóla- og leikskólakennarar fjölmennastir.
Á þetta bendir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, í leiðara nýs fréttabréfs SA. Hann segir að ef sveitarfélögin geri kjarasamninga með svipuðum kostnaðarhækkunum og felast í kjarasamningi ríkisins og félags framhaldsskólakennara, án þess að fá ámóta ávinning á móti, sé ljóst að þau sprengi stöðugleikastefnuna í loft upp. „Ábyrgðin sem hvílir á sveitarfélögunum er mikil og afleiðingar kjarasamninga þeirra á næstunni munu skipta sköpum um þróun verðbólgu, gengis og kaupmáttar launa á næstu árum,“ skrifar Hannes.
„Þorri allra samninga er til 15 mánaða með 2,8% almennri launahækkun, þó að lágmarki 8 þúsund krónur auk 1.750 króna sértækrar hækkunar á grunnlaun undir 230 þúsund krónum og 30 þúsund króna hækkunar á orlofs- og desemberuppbótum. Kostnaðarmat samninganna var tæp 4% á ársgrundvelli að teknu tilliti til 0,75% áætlaðra launabreytinga í launakerfum fyrirtækja og stofnana á tímabilinu. Nokkrir samningar hafa verið gerðir til lengri tíma, eða allt að þriggja ára. Þeir samningar hafa falið í sér sambærilegar kostnaðarhækkanir í upphafi auk tilvísunar til umsaminna almennra hækkana á vinnumarkaði á samningstímanum. Það gildir einnig um nýgerðan kjarasamning SA við stéttarfélög starfsmanna Isavia.“
Sjá nánar hér.