Borgin hefur virt samkomulagið

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reykjavíkurborg hefur virt samkomulag við innanríkisráðuneytið og Icelandair um innanlandsflug frá 25. október 2013 í einu og öllu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni vegna frétta um flugvallarmálið undanfarna daga.

„Nýtt deiliskipulag fyrir Reykjavíkurflugvöll er í fullu samræmi við samkomulagið og var raunar kveðið á um fjölmörg atriði þess í samkomulaginu, m.a. stækkun flugstjórnarmiðstöðvar, flugstöðvarinnar, niðurlagningu þriðju flugbrautarinnar og fleira,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Þá segir að uppbyggingaráform Valsmanna á Hlíðarenda sé einnig í fullu samræmi við samkomulagið, þótt ekki sé kveðið sérstaklega á um þau í samkomulaginu.

Borgarráð hefur gert sérstaka bókun um að við mótun skipulags í Skerjafirði verði horft til niðurstöðu nefndar sem nú er að störfum undir forystu Rögnu Árnadóttur. 

Isavia hefur það verkefni með höndum að finna framtíðarstaðsetningu fyrir æfinga- og kennsluflug, en í samkomulaginu segir: „Óháð öðrum verkþáttum sem í samkomulaginu felast munu innanríkisráðuneytið og Isavia hafa forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar í samræmi við áður gefin fyrirheit vegna endurbyggingar vallarins um síðustu aldamót og skal stefnt að því að framkvæmdir verði hafnar eins fljótt og verða má.“

Samkomulagið má sjá hér.

mbl.is