Góð rök fyrir því að fjölga seðlabankastjórum

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðhera.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðhera. mbl.is/Ómar

Bjarni Bendikts­son, fjár­mála- og efn­hags­ráðherra, seg­ir að góð rök séu fyr­ir því að Seðlabanka Íslands sé stjórnað af mönn­um sem sitja sam­an yfir mál­un­um og koma að stærstu ákvörðunum bank­ans.

Fram kom í máli hans í Sprengisandi á Bylgj­unni í morg­un að lög um Seðlabank­ann væru til end­ur­skoðunar. Bjarni sagði að nú væri búið að setja á fót starfs­hóp, sem Ólöf Nor­dal, formaður bankaráðs, færi fyr­ir, til að leggja mat á æski­leg­ar breyt­ing­ar á lög­un­um.

„Ég er ákveðinn í því að láta hóp­inn ljúka sín­um störf­um og koma fram með sín­ar til­lög­ur,“ sagði Bjarni.

Við stæðum frammi fyr­ir tveim­ur val­kost­um. Ann­ars veg­ar að hafa einn seðlabanka­stjóra og hins veg­ar fleiri en einn, „eins og mjög víða er gert og var lengst af fyr­ir­komu­lagið hér á landi. Þeir skipta þá með sér verk­um og kjósa sér formann,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að það væru bæði kost­ir og gall­ar við báðar leiðirn­ar. „Það er ekki skyn­sam­legt að kom­ast að niður­stöðu áður en maður set­ur málið af stað í skoðun,“ sagði hann.

Bjarni benti á að verk­efni bank­ans hefðu stækkað mjög að um­fangi, ekki bara vegna fjár­magns­haft­anna, held­ur einnig vegna þess að efna­hags­reikn­ing­ur bank­ans væri orðinn gríðarlega stór eft­ir hrun bank­anna.

Skip­un­ar­tími Más Guðmunds­son­ar seðlabanka­stjóra renn­ur út nú í sum­ar. Bjarni sagði að þá yrði starfið aug­lýst og skipað í það á nýj­an leik sam­kvæmt lög­um.

Frétt mbl.is: Ekki ánægður með fylgið

Frétt mbl.is: Evr­ópu­málið of fyr­ir­ferðar­mikið

mbl.is