Í samanburði við heilbrigðis- og sjúkrahúsaþjónustu almennt hófst samdráttur ríkisútgjalda til Landspítalans fyrr, var hlutfallslega meiri og virðist ætla að skila sér seinna til baka, sagði María Heimisdóttir, framkvæmdstjóri fjármálasviðs Landspítalans, á ársfundi spítalans sem haldinn var í gær.
Hún benti á að að einhverju leyti væri eðlilegt að stærsta opinbera stofnun landsins tæki á sig hlutfallslega þyngri byrðar við endurreisn efnahagslífsins en almennt gerðist. Hins vegar þyrfti að gæta þess að hún gæti áfram gegnt því hlutverki sem henni væri ætlað að sinna samkvæmt lögum.
Fram kom í erindi Maríu að á árunum 2001 til 2008 hefðu útgjöld til heilbrigðisþjónustu í heild, sjúkrahúsaþjónustu almennt og Landspítalans aukist mismikið, að hámarki 11% hjá Landspítalanum.
Árið 2008 hefði síðan samdráttur útgjalda hafist hvað Landspítalann varðaði en hins vegar hefðu útgjöld enn aukist til heilbrigðisþjónustunnar í heild, upp í 22% miðað við árið 2001, sem og til sjúkrahúsaþjónustu almennt, í 15% miðað við 2001.
Eftir 2008 hefði síðan verið samdráttur í öllum þremur flokkunum en hlutfallslega mun meiri gagnvart Landspítalanum, auk þess sem endurbatinn virtist þar skila sér eitthvað seinna.
Árið 2012 hafi aðeins 1% vantað upp á að útgjöld til sjúkrahúsþjónustu almennt væru þau sömu og árið 2001. „Landspítali á talsvert lengra í land en útgjöld til hans á árinu 2012 voru enn 7% lægri en árið 2001 og 4% lægri árið 2013,“ sagði María.
Hún skoðaði jafnframt rekstrarniðurstöðu spítalans fyrir árið 2013 í samhengi við þróun opinberra útgjalda frá aldamótum, þar sem árið 2001 var viðmiðunin fyrir öll árin.
Hún sagði að á samræmdu verðlagi hefðu útgjöld aukist jafnt og þétt árin 2001 til 2007 til meðal annars menntamála, almannatrygginga og velferðarmála, heilbrigðismála almennt og til Landspítalans.
Aukning útgjalda til Landspítala á þessum árum hefði þó verið umtalsvert minni hlutfallslega en til hinna flokkanna, eða 11% miðað við 19% aukningu til heilbrigðismála í heild og 25% til menntamála.
Útgjöldin til allra þessara flokka hefðu síðan – eftir hrun – dregist saman, eins og við var að búast, en þó hefðu útgjöld til menntamála enn verið 15% hærri árið 2012 en 2001 og útgjöld til heilbrigðismála í heild 8% hærri.
„Útgjöld til Landspítala árið 2012 voru hins vegar 7% lægri en árið 2001 og árið 2013 voru þau enn 4% lægri en árið 2001,“ sagði María.
María sagði að Landspítalinn væri vissulega stór á íslenskan mælikvarða, en þó gilti lögmálið um hagkvæmni stærðarinnar varla ef bornar væru saman kostnaðartölur hans við Karolinska og Sahlgrenska sjúkrahúsin í Svíþjóð.
Landspítalinn er aðeins um fjórðungur af stærð þeirra.
Ráðgjafarfyrirtækið McKinsey gerði samanburð á rekstrarkostnaði þessara þriggja sjúkrahúsa árið 2013. Samkvæmt mælingum OECD má gera ráð fyrir því að verðlag sé um 12% hærra í Svíþjóð en á Íslandi, en María benti á að munurinn á kostnaði við þjónustu sjúkrahúsanna hefði reynst mun meiri.
Þjónusta Karolinska sjúkrahússins hefði til að mynda verið 58% dýrari á hverja einingu en þjónusta Landspítalans.
„Landspítalinn leggur áherslu á hagkvæmni í rekstri og hefur náð mjög langt á því sviði en slíkur kostnaðarmunur milli stofnana sem hafa svipuðu hlutverki að gegna getur ekki talist eðlilegur,” sagði María.
Samdráttur í rekstrarkostnaði Landspítala síðustu ár hefði verið nauðsynlegur í ljósi aðstæðna, en hann hefði nú þegar gengið allt of langt.
„Ráðamenn þjóðarinnar virðast gera sér grein fyrir þessu ef dæma má af þeim stuðningi sem Alþingi sýndi Landspítala á fjárlögum ársins 2014, þar sem nokkuð var aukið við fjárframlög til spítalans.
Vonandi var sú aðgerð fyrsta skrefið í langþráðri uppbyggingu sjúkrahússins.“