Yfirmaður dómsmála í Oklahoma-ríki í Bandaríkjunum hefur samþykkt að fresta aftöku fanga á dauðadeild um hálft ár í kjölfar aftöku sem misheppnaðist í síðustu viku. Taka átti Charles Warner af lífi aðeins örfáum tímum eftir að aftaka Clayton Lockett misfórst.
Dómari á hins vegar eftir að taka lokaákvörðun í málinu en komist hann að sömu niðurstöðu verður aftökunni frestað á meðan málið er til rannsóknar.
Lockett lést af völdum hjartaáfalls eftir að honum hafði verið gefin rangur skammtur af banvænni lyfjablöndu.
Mary Fallin, ríkisstjóri Oklahoma, hefur fyrirskipað að allar verklagsreglur í tengslum við aftökur í ríkinu verði endurskoðaðar.
Warner og Lockett áttu að vera teknir af lífi 29. apríl sl., en það er sjaldgæft að tveir séu teknir af lífi einn og sama daginn.
Lockett var á undan en starfsmenn fangelsisins sem komu að aftökunni áttu erfitt með að finna góða æð sem hægt var að sprauta lyfinu í. Þetta endaði með því að þeir sprautuðu lyfinu í nára Lockett.
Eitthvað misfórst við aftökuna en fanginn lést nokkru eftir að aftakan var stöðvuð þar sem fanginn skalf allur og hristist. Talið er að bláæð hafi sprungið sem kom í veg fyrir eðlilegt flæði lyfjablöndunnar sem nota átti við að drepa Lockett. Hann var hins vegar úrskurðaður látinn 43 mínútum eftir að byrjað var að dæla í hann banvænu lyfjablöndunni. Dánarorsökin var hjartaáfall.
Í kjölfarið var aftöku Warners frestað.