Fulltrúar hvalaskoðunarfyrirtækja hafa óskað eftir fundi hið fyrsta með sjávarútvegsráðherra en hópurinn segir að endurskoða verði mörkin á milli hvalveiða og hvalaskoðunar um allt land áður en illa fari fyrir fyrirtækjum og samfélögum sem hafi mikinn hag af þeim gestum sem vilja skoða hvali.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Hvalaskoðunar Reykjavíkur, sendir fyrir hönd hópsins.
Þar segir að fulltrúar hvalaskoðunarfyrirtækja auk annarra tengdra aðila frá Íslandi hafi farið til Bandaríkjanna 27. apríl síðastliðinn í tíu daga fræðsluferð. Dagskráin var skipulögð af bandaríska utanríkisráðuneytinu með milligöngu bandaríska sendiráðsins á Íslandi.
Fram kemur, að tilgangur ferðarinnar hafi verið að kynna íslenska hópnum þá stefnu sem bandarísk stjórnvöld hafi markað sér varðandi málefni hvala og hvalaskoðunar. Fundað hafi verið með embættismönnum utanríkisráðuneytisins, fulltrúum þingmanna, starfsmönnum stofnana sem vinna að rannsóknum á hvölum og lífríki hafsins, fulltrúum hvalaskoðunarfyrirtækja og frjálsum félagasamtökum.
„Sú mikla vinna sem Bandaríkjamenn hafa lagt í rannsóknir á hvölum kom okkur á óvart og hversu umfangsmiklar þær eru. Þá þótti okkur mikið koma til ýmissa ráðstafana sem gripið hefur verið til við verndun hvala, þar á meðal breytingar á siglingaleiðum og þróun veiðafæra sem takmarka hættuna á að hvalir festist í þeim. Sérstaklega áhugavert þótti okkur að heimsækja borgir og bæi á austurströnd Bandaríkjanna þar sem áður voru stundaðar miklar hvalveiðar. Þar er nú rekin öflug ferðaþjónusta sem byggir að miklu leyti á hvalaskoðun, sýningum tengdum hvalveiðitímanum og fræðslu um arfleifð þessara samfélaga. Þessar borgir og bæir draga að milljónir ferðamanna ár hvert.
Þessi ferð hefur styrkt þá trú okkar að hvalaskoðun og hvalveiðar geti ekki farið saman til lengdar líkt og er tilfellið á Faxaflóa. Við teljum ljóst að endurskoða verði mörkin á milli hvalveiða og hvalaskoðunar um allt land áður en illa fer fyrir fyrirtækjum og samfélögum sem hafa mikinn hag af þeim gestum sem hvalina vilja skoða,“ segir í tilkynningunni.
Þá vill hópurinn vekja athygli á því að nefnd sem sjávarútvegsráðherra skipaði á síðasta kjörtímabili til að gefa álit um nýtingu hvala hafi ekki lokið störfum. Bent er á, að á síðasta ári hafi meirihluti nefndarinnar þó lagt fram fram tillögur að auknu verndarsvæði í Faxaflóa sem sjávarútvegsráðherra gerði en var afturkallað nokkrum vikum síðar. Er ráðherra hvattur til að leyfa nefndinni ljúka störfum.
Þá tekur hópurinn undir tillögu til þingsályktunnar um mat á heildarhagsmunum vegna hvalveiða sem lagt var fram á Alþingi 31. mars síðastliðinn. Samkvæmt ályktun Alþingis hafi fjármála- og efnahagsráðherra verið falin þessi vinna og er hann jafnframt hvattur til að hraða henni sem kostur er.
„Fyrir hönd hópsins og Hvalaskoðunarsamtaka Íslands óskum við eftir fundi hið fyrsta með Sigurði Inga Jóhannessyni sjávarútvegsráðherra til að ræða þá alvarlegu stöðu sem uppi er í greininni,“ segir að lokum í tilkynningunni.