Vilja að aftökum verði frestað

Dauðadeild
Dauðadeild AFP

Þrír fangar á dauðadeildum í bandarískum fangelsum hafa farið fram á að aftökum þeirra, sem eiga að fara fram á næstunni, verði frestað. Bera þeir við að ekki sé hægt að tryggja að aftakan fari fram með mannúðlegum hætti og vísa til aftöku sem misheppnaðist seint í síðasta mánuði.

Aftakan sem mennirnir vísa til var 29. apríl síðastliðinn. Þá stóð til að taka af lífi dæmdan nauðgara og morðingja, Clayton Lockett. Eitthvað misfórst við aftökuna sem var stöðvuð þegar Clayton skalf allur og hristist. Talið er að bláæð hafi sprungið sem kom í veg fyrir eðlilegt flæði lyfjablöndunar sem notað var til að taka hann af lífi. Hann var hins vegar úrskurðaður látinn 43 mínútum eftir að að byrjað var að dæla í hann lyfjunum. Dánarorsökin var hjartaáfall.

Í kjölfar þess sögðu mannréttindasamtök að atvikið ætti að leiða til þess að aftökum verði frestað þar til ríki sanni að þau geti framkvæmt þær án vandamála. Í kjölfar þessa hafa fangar á dauðadeildum reynt að stöðva aftökur sínar.

Robert James Campbell er einn þeirra en til stendur að taka hann af lífi á morgun. Maurie Levin, lögmaður hans, segir að réttindi Campbell verði fótum troðin ef hann verður tekinn af lífi með lyfjablöndu. Það sé brot á stjórnarskránni að pynta menn til dauða. 

Það sama á við um Russell Bucklew sem á að lífláta í næstu viku og Richard Poplawski sem einnig bíður aftöku.

mbl.is