Fyrsta aftakan eftir mistökin

Robert James Campbell var dæmdur til dauða fyrir að nauðga …
Robert James Campbell var dæmdur til dauða fyrir að nauðga ungri konu og myrða hana.

41 árs gamall karlmaður, Robert James Campbell, verður tekinn af lífi í Texas í kvöld. Þetta er fyrsta aftakan í Bandaríkjunum eftir að Clayton Lockett í Oklahoma var „pyntaður til dauða“ eins og lögfræðingur hans orðaði það, en hann lést úr hjartaáfalli eftir misheppnaða aftöku.

Lögmenn Campbell hafa skotið málinu til hæstaréttar á síðustu stundu, því þeir vilja að stjórnvöld í Texas gefi upp hvaða lyfjablanda var notuð í aftöku Lockett, til að koma í veg fyrir að mistökin þann 29. apríl í Oklahoma endurtaki sig.

Þeir segja að misheppnaða aftakan sýni að það að halda uppruna lyfjablöndunnar leyndum geti orðið til þess að fangar verði fyrir ómannúðlegri meðferð sem stangist á við stjórnarskrá.

„Nú er komið að ögurstundu, þar sem Texas verður að viðurkenna að fangar á dauðadeild teljast ekki lengur öruggir nema þeir fái allar upplýsingar á borðið,“ hefur BBC eftir lögmanninum Maurie Levin.

Lögfræðingar Texas-ríkis segja málið reyfarakennt. „Stjórnarskrá kveður ekki á um að dregið verði alfarið úr sársauka,“ sagði aðstoðarríkissaksóknari Texas, Ellen Stewart-Klein um málið.

Campbell var dæmdur til dauða fyrir að ræna tvítugri kona, Alexöndru Rendon, árið 1991, nauðga henni og skjóta hana að því loknu til bana.

mbl.is