Lækkun á veiðigjöldum samþykkt

Myndin er tekin í fiskvinnslu HB Granda á Akranesi
Myndin er tekin í fiskvinnslu HB Granda á Akranesi mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alþingi samþykkti í gær­kvöldi frum­varp til laga um breyt­ingu á lög­um um veiðigjöld. Skipt­ar skoðanir voru á frum­varp­inu en með því lækk­ar veiðigjald á út­gerðir, sök­um versn­andi af­komu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja og lækk­andi afurðaverðs á er­lend­um mörkuðum.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, sjáv­ar­út­vegs­ráðherra, þakkaði við at­kvæðagreiðsluna á þingi í gær­kvöldi at­vinnu­vega­nefnd Alþing­is og þing­mönn­um öll­um fyr­ir óvenju­lega mál­efna­lega umræðu um veiðigjaldið þetta árið. „Ég tel að við séum á réttri leið. Við erum að horfa til þess að í land­inu er mjög fjöl­breytt­ur sjáv­ar­út­veg­ur, horfa til þess að horf­urn­ar eru verri en hafa verið um nokk­urra ára skeið og ég tel að við séum á góðri leið með að ná því mark­miði að ræða um okk­ar mik­il­vægu at­vinnu­grein á skyn­sam­leg­um nót­um.“

Hann sagði að nán­ar verði farið yfir málið á næstu vik­um og í sum­ar en að hann telji málið gott fyr­ir landið allt og þær 620 út­gerðir sem hér starfa, smá­ar sem stór­ar.

Árni Páll Árna­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagði ým­is­legt horfa til betra veg­ar eft­ir meðferð at­vinnu­vega­nefnd­ar þings­ins á frum­varp­inu. „En vand­inn við að styðja málið er mik­ill því í því felst enn frek­ari lækk­un veiðiheim­ilda. Það er ekki eðli­legt að setja það í for­gang að draga stöðugt úr gjald­töku fyr­ir aðgang að sam­eig­in­leg­um auðlind­um.“

Hann sagðist frek­ar hafa viljað fara í þá veg­ferð með rík­is­stjórn­inni að finna leið til að sætta þau sjón­ar­mið að grein­in eigi að greiða sann­gjarnt verð til þjóðar­inn­ar og að verð eigi að ráðast af getu grein­ar­inn­ar á hverj­um tíma. „Besta leiðin til þess er að láta verðmynd­un á markaði með veiðiheim­ild­ir ráða því end­ur­gjaldi sem grein­in greiðir til þjóðar­inn­ar. Það er sann­gjarnt og rétt­látt bæði fyr­ir grein­ina og þjóðina.“

Frum­varpið

Sjá breyt­ing­ar­til­lögu á veiðigjalda­frum­varpi

Sjá nefndarálit um veiðigjalda­frum­varp

mbl.is