Aftöku frestað af heilsufarsástæðum

AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna ákvað í gærkvöldi að fresta aftöku dæmds morðingja og nauðgara í Missouri. Ástæðan fyrir því aftökunni er af heilsufarsástæðum en talið var að bág heilsa hins dauðadæmda gæti valdið því að banvæn lyfjagjöf væri of kvalafull og bryti þar með gegn stjórnarskrá landsins.

Ákvörðun hæstaréttar kom í kjölfar deilna lögmanna hins dauðadæmda og ríkisins á lægra dómstigi í gær. Þrátt fyrir ákvörðun hæstaréttar getur verið að fanginn verði tekinn af lífi síðar í dag þegar málið hefur verið skoðað gaumgæfilega af dómurum.

Þykir þetta til marks um þær miklu deilur sem eru um aftökur með lyfjagjöf í Bandaríkjunum í kjölfar þess að ekki fást lyf til að nota við aftökurnar.

Til stóð að taka fangann, Russell Bucklew, af lífi klukkan 12:01 að bandarískum tíma, klukkan 5:01 í morgun að íslenskum tíma. Þetta er þriðja aftakan sem er frestað síðan aftaka í Oklahoma fór úr böndunum í síðasta mánuði.

Bucklew var dæmdur fyrir morð á ástmanni fyrrverandi sambýliskonu sinnar og fyrir að nauðga henni. 

Russell Bucklew og Stephanie Ray bjuggu saman um tíma en á Valentínusardaginn árið 1996 sleit Ray sambandinu og Bucklew  fluttu heim til foreldra sinna aftur. En þann 6. mars það sama ár snéri Bucklew aftur í hjólhýsið sem þau höfðu búið saman í þar sem hann fann Michael Sanders. Taldi hann að Sanders og Ray væru par og hótaði Sanders lífláti myndi hann einhvern tíma stíga fæti sínum inn í hjólhýsið á ný.

Síðar um kvöldið kom Buclew aftur í hjólhýsið þar sem sem Ray var ein heima. Hótaði hann henni með hníf og sló hana í andlitið. Kærði hún árásina til lögreglu. Það var síðan aðfararnótt 21. mars að Bucklew stal bíl frænda síns, tveimur byssum bróður síns, handjárnum og sterku límbandi. Hann skrifaði miða til fjölskyldunnar og bað hana um að tilkynna ekki þjófnaðinn til lögreglu.

Síðdegis þann 21. mars veitti Bucklew Ray eftirför að hjólhýsi því sem Sanders bjó í. Bucklew beið í einhvern tíma fyrir utan en bankaði síðan á dyr hjólhýsisins. Eitt barna Sanders opnaði fyrir honum en þegar Sanders sá Bucklew fyrir utan bað hann börnin um að fara inn í herbergi baka til og sótti sér byssu. Bucklew kom inn í hjólhýsið með byssu í hvorri hönd. Skaut hann Sanders sem féll við. Þegar hann ætlaði að skjóta Sanders í höfuðið sá hann sex ára gamlan son hans og skaut að drengnum en hæfði ekki. 

Handjárnaði hann Ray og dró hana út í bíl þar sem hann nauðgaði henni. Hann var síðan handtekinn á flótta en Sanders blæddi út.

Buclew var síðan dæmdur til dauða fyrir glæpi sína og hefur setið inni í átján ár. Hann er hins vegar alvarlega veikur, með æxli á höfði og hálsi sem geta valdið því að dauðdagi hans verði kvalafullur sem brýtur gegn áttundu grein stjórnarskráarinnar. 

 

mbl.is