Lögð verða fram ný gögn í máli bresks kaupsýslumanns sem hefur setið í fangelsi í Flórída í 27 ár á miðvikudag. En hann var dæmdur til dauða árið 1987. Talið er að gögnin geti leitt í ljós að hann hefur setið saklaus í fangelsi allan þennan tíma, segir í tilkynningu mannréttindasamtakanna Reprieve.
Kris Maharaj, sem er 75 ára að aldri, var dæmdur til dauða fyrir tæpum þremur áratugum í Miami fyrir morðið á Derrick og Duane Moo Young. Dauðarefsingunni var breytt í lífstíðardóm árið 1997. Maharaj heldur því fram að kólumbískir eiturlyfjabarónar beri ábyrgð á því að hafa skotið Duane og Derrick Moo Young til bana í Miami árið 1986.
Lögmenn Maharajs segja að morðin hafi verið að undirlagi Pablo Escobar, sem stýrði Medellin eiturlyfjahringnum í Kólumbíu en hann var skotinn til bana af sérsveitum kólumbísku lögreglunnar árið 1993.
Svo virðist að í þeim gögnum sem nú verða lögð fram að Moo Youngs hafi annast peningaþvætti fyrir kólumbíska eiturlyfjabaróna og hafði „týnt“ fimm milljörðum Bandaríkjadala sem hann átti að koma í umferð löglega.