Tennessee-ríki í Bandaríkjunum hefur breytt lögum um dauðarefsingar á þá leið að ef ekki verður hægt að útvega viðeigandi banvæn lyf til þess að framkvæma aftökur dauðadæmdra fanga megi þess í stað notast við rafmagnsstól. Ríkisstjóri Tennessee, Bill Haslam, staðfesti lagabreytinguna í gær samkvæmt frétt AP.
Lagabreytingin kemur í kjölfar þess að sífellt hefur reynst erfiðara að útvega slík lyf vegna herferðar sem leidd hefur verið af Evrópuríkjum og miðar að því að koma í veg fyrir sölu á lyfjum sem nota á til þess að framkvæma aftökur. Fram kemur í fréttinni að lagabreytingin hafi verið samþykkt með miklum meirihluta atkvæða bæði í efri og neðri deild þings Tennessee-ríkis.
Sum ríki Bandaríkjanna heimila dauðadæmdum föngum að velja á milli þess að vera teknir af lífi með banvænni lyfjagjöf eða með rafmagnstól. Kveðið var á um slíkt fyrirkomulag áður í lögum Tennessee-ríkis. Hins vegar verður ríkið það fyrsta til þess að breyta lögum á þann veg að dauðadæmdir fangar hafi ekki slíkt val. Samtals bíða 74 fangar aftöku í Tennessee-ríki samkvæmt fréttinni.