87 brautskráðir frá FG

Elísa Rún Hermundardóttir, dúx Fjölbrautaskólans í Garðabæ.
Elísa Rún Hermundardóttir, dúx Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Ljósmynd/Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Þrítugasta brautskráning stúdenta var haldin í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ í gær að viðstöddu fjölmenni. Alls voru 87 nemendur brautskráðir af hinum ýmsu brautum skólans en flestir af stúdentsbrautum, eða 76. Alls útskrifuðust átján af félagsfræðabraut, átján af náttúrufræðibraut og sextán af listnámsbrautum.

Dúx skólans að þessu sinni var Elísa Rún Hermundardóttir, af náttúrufræðibraut, með 9,01 í meðaleinkunn. Fékk hún fjölda verðlauna fyrir frábæran námsárangur en fjölmargir aðrir nemendur fengu einnig verðlaun fyrir góða frammistöðu í námi.  

Boðið var upp á tónlistaratriði, sem nemendur sáu um, ræður voru haldnar og Oddný Helga Einarsdóttir flutti ræðu nýstúdents. Við athöfnina fengu einnig tveir starfsmenn skólans gullmerki FG, þau Þorsteinn Þorsteinsson, fyrrum skólameistari, og Brynja Baldursdóttir, íslenskukennari, sem lætur nú af störfum eftir 28 ára starfsferil.

Þorsteinn lét af störfum árið 2010, eftir að hafa verið skólameistari frá upphafi Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Núverandi skólameistari er Kristinn Þorsteinsson. Í haust heldur skólinn upp á 30 ára starfsafmæli skólans.

mbl.is