Með hæstu meðaleinkunn í sögu Verzlunarskólans

Marta ásamt foreldrum sínum, Ingigerði Torfadóttur og Jóni Óttarri Karlssyni.
Marta ásamt foreldrum sínum, Ingigerði Torfadóttur og Jóni Óttarri Karlssyni. Mynd/Einkasafn

„Ég er ekki með neina sérstaka tækni, heldur hef ég bara alltaf átt alltaf frekar auðvelt með að muna hluti þegar ég er búin að lesa þá,“ segir Marta Jónsdóttir, dúx Verzlunarskóla Íslands, sem útskrifaðist á laugardaginn með hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi sem gefin hefur verið við skólann, eða 9,8.

Hún segist hafa fengið margar spurningar um námstækni og lykilinn að góðum námsárangri en segist ekki hafa neitt eitt svar við spurningunni. „Það sem ég geri hreinlega er að fylgjast með í tíma og þá þarf maður mjög lítið að læra heima.“

Marta er úr Kópavoginum þar sem hún var í Snælandsskóla áður en hún hóf nám við Verzlunarskólann. Foreldrar Mörtu eru þau Ingigerður Torfadóttir og Jón Óttarr Karlsson. Þá má einnig geta þess að systir Mörtu er Katrín Jónsdóttir, fyrrum landsliðsfyrirliði í knattspyrnu.

Valdi Verzló eftir heimsókn í skólann

Marta var eiginlega fyrst búin að ákveða að sækja um nám í MR en skipti um skoðun eftir að hún fór í heimsókn í Verzlunarskólann. „Þegar ég fór þangað fannst mér allt líta mjög vel út. Síðan bjóða þeir upp á lögfræðiáfanga á síðasta ári og mér leist vel á skólann yfirhöfuð,“ segir Marta. 

Uppáhaldsnámsgreinar Mörtu eru að hennar sögn stærðfræði, viðskiptatengd fög og saga en í haust stefnir hún á nám í lögfræði við Háskóla Íslands. Hún segist hafa ákveðið það fyrir löngu síðan. „Ég held ég hafi stefnt að því síðan í 8. bekk í raun.“ Aðspurð hvað heilli við lögfræðina segir Marta það vera fjölbreytnina. „Þetta er mjög krefjandi nám og með lögfræðimenntun get ég gert hvað sem er eftir á. Þú þarft ekki að verða lögmaður, þú getur unnið ýmis fjölbreytt störf og það opnast margar dyr.“

Halda strax í útskriftarferð til Mallorca

Áður en námið hefst í haust ætlar Marta þó að njóta sumarsins og morgun leggja Verzlingar af stað í útskriftarferð til Mallorca. „Sumir verða tvær vikur en svo eru einhverjir eins og ég að fara í inntökupróf og fara þá heim eftir viku,“ segir Marta því inntökupróf í lagadeild Háskóla Íslands er haldið í byrjun júní.

Í sumar mun hún svo starfa í móttökunni á Hótel Reykjavík Centrum áður en hún hyggst svo ljúka sumrinu með því að fara á Þjóðhátíð í Eyjum. 

Systkinahópurinn, Pétur Jónsson, Katrín Jónsdóttir og Marta Jónsdóttir.
Systkinahópurinn, Pétur Jónsson, Katrín Jónsdóttir og Marta Jónsdóttir. Mynd/Einkasafn
Mynd/Einkasafn
mbl.is