Dauðadæmd móðir fæddi barn í fangelsinu

Dauðadeild
Dauðadeild AFP

Lögmaður hinnar dauðadæmdu Mer­iam Ya­hia Ibra­him Is­hag tilkynnti fyrir stuttu að hún hefði fætt stúlkubarn innan veggja Omdurmans-kvennafangelsisins í morgun, en þetta kemur fram í frétt BBC.

Is­hag var dæmd til dauða í Súdan á dögunum fyrir trúvillu samkvæmt íslömskum sjaría-lögum. Dóminn hlaut hún fyrir að hverfa opinberlega frá íslam, en þá trú hafði hún hins vegar aldrei játað. Raunin var sú að faðir Ishag, sem ekki tók þátt í uppeldi hennar, er múslimi en móðir hennar kristin og var hún því alin upp við kristna trú. Ishag er 27 ára gömul og á fyrir 20 mánaða gamlan dreng.

Dóminn hlaut Ishag þegar hún var búin með átta mánuði meðgöngunnar, en hún var jafnframt dæmd til þess að þola 100 svipuhögg fyrir að giftast kristnum manni. Þeirri refsingu verður fullnægt þegar Ishag hefur jafnað sig á barnsburðinum, en áætlað er að hún verði hengd þegar hún hefur alið nýfætt barn sitt upp í tvö ár. 

Fjölmargir hafa fordæmt dóminn yfir Ishag, en meðal þeirra eru sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna, bresk stjórnvöld og ýmis mannréttindasamtök.

mbl.is