Fær ekki nóg af stærðfræði

mbl.is/Fjölbrautarskólinn í Breiðholti

„Það sem heillar er hvað hún er krefjandi og flókin. Þetta snýst rosalega mikið um skilning,“ segir Eyrún Guðmundsdóttir, stúdent úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti en henni tókst það afrek að útskrifast með 10 í einkunn í 11 af 12 stærðfræðiáföngum sem hún tók. 

„Hef alltaf haft mikinn áhuga á stærðfræði, þótt mér hafi einnig gengið ágætlega í hinum fögunum í skólanum,“ segir Eyrún. Hún hefur þó hvergi nærri fengið nóg af stærðfræðinni í bili því hún stefnir á nám í stærðfræði við Háskóla Íslands í haust. Aðspurð hvernig hún hyggist nota stærðfræðina í framtíðinni segir hún marga möguleika vera í stöðunni. „En eins og staðan er í dag þá stefni ég á tryggingastærðfræði,“ segir þessi efnilega stelpa. 

Tók alla áfanga sem í boði voru

Eyrún tók alla stærðfræðiáfanga sem í boði voru í FB og gott betur. „Ég tók svo einn aukaáfanga í Borgarholtsskóla og einn í Verslunarskólanum.“ Í sumar mun hún svo hlaða batteríin fyrir háskólanámið í haust með því að heimsækja vinkonu sína í útlöndum. 

Útskriftarathöfnin fór fram í Háskólabíói í dag og ætlar Eyrún að halda útskriftarveislu í kvöld. Hún ætlar þó að vakna snemma í fyrramálið. „Ég starfa sem blaðberi hjá Morgunblaðinu, og blaðið verður að komast út á morgun,“ segir Eyrún. 

mbl.is