Daniel Wani, eiginmaður Mariam Yahya Ibrahim Ishag sem dæmd var til dauða fyrir trúvillu samkvæmt íslömskum sjaría-lögum, hefur nú heimsótt nýfædda dóttur þeirra hjóna og eiginkonu sína í fangelsið.
Barnið, sem kom í heiminn á þriðjudag, dvelur í fangelsinu ásamt móður sinni og mun gera það næstu tvö árin, eða þar til hún verður tekin af lífi. Sonur þeirra hjóna dvelur einnig í fangelsinu með móður sinni.
Dóminn hlaut Ishag þegar hún var komin átta mánuði á leið, en hún var jafnframt dæmd til þess að þola 100 svipuhögg fyrir að giftast kristnum manni. Þeirri refsingu verður fullnægt eftir tvö ár.
Wani sagði að andleg líðan eiginkonu sinnar virtist vera aðeins betri en áður og ungbarnið væri við góða heilsu. Hann segist vona að dómurinn yfir eiginkonu sinni verði endurskoður.