James Elías dúx Tækniskólans

Tækniskólinn útskrifaði nemendur af vorönn 2014 miðvikudaginn 28. maí síðastliðinn í Eldborgarsal Hörpu. Dúx skólans var James Elías Sigurðarson sem útskrifast af tölvubraut á aðeins tveimur árum með afburða árangri.

Alls voru útskrifaðir 395 nemendur úr 11 skólum Tækniskólans af 30 mismunandi brautum með 426 burtfararskírteini. Þar af voru 22 nemendur í  samvinnuverkefni Tækniskólans og Myndlistaskólans í Reykjavík.

Nemendur útskrifuðust bæði úr hefðbundnu framhaldsskólanámi og einnig úr diplómanámi (Fagháskóla). Alls voru 135 nemendur útskrifaðir á Fagháskólastigi.

Í öðru sæti á eftir James Elíasi er Eyrún Dröfn Jónsdóttir sem útskrifast úr Tækniteiknun. Á almennu stúdentsprófi er Karen Sif Jakobsdóttir er hæst. Hún lýkur prófi af náttúrufræðibraut – flugtækni á þremur árum en í því eru bóklegar greinar til einkaflugmanns. Alls voru veitt 55 verðlaun við útskriftina.

Sara Pétursdóttir, nemandi í skólanum sem vann Söngkeppni framhaldsskólanna í vor, söng við athöfnina.

mbl.is